Vísitala framleiðsluverðs¹  fyrir 2. ársfjórðung 2006 (4. ársfj. 2005=100) er 118,8 stig, 11,5% hærri en á 1. ársfjórðungi 2006. Vísitala framleiðsluverðs fyrir sjávarafurðir er 120,4 stig og hækkar um 14,8% (vísitöluáhrif 5,9%). Vísitala framleiðsluverðs fyrir annan iðnað er 117,8 stig og hækkar um 9,3% (5,6%).

Vísitalan fyrir vörur sem framleiddar voru og seldar innanlands er 103,6 stig, en það jafngildir 2,3% verðhækkun (0,9%) og fyrir útfluttar afurðir 128,2 stig, sem er hækkun um 17,1% (10,6%) frá 1. ársfjórðungi 2006. Vísitala framleiðsluverðs fyrir útfluttar afurðir án sjávarafurða er 142,6 stig en það er hækkun um 21,1% frá fyrri ársfjórðungi (4,7%).

Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 3,3%, launavísitala um 1,6% og meðalverð á erlendum gjaldeyri um 17,0%.

Frá öðrum ársfjórðungi 2005 hefur vísitalan í heild hækkað um 17,9%, vísitalan fyrir sjávarafurðir um 20,6% og fyrir annan iðnað um 16,1%.

Grunnur vísitölu framleiðsluverðs er endurskoðaður árlega og er nú skipt um grunn hennar í samræmi við niðurstöður iðnaðarskýrslna fyrir árið 2005. Jafnframt er breytt um aðferð við útreikning vísitölunnar og er hún frá og með 1. ársfjórðungi 2006 reiknuð sem afburðavísitala (Fisher) bæði í grunni og fyrir yfirflokka. Yfirflokkar vísitölunnar eru reiknaðir út frá söluverðmæti framleiðsluvara áranna 2004 og 2005.

¹ Vísitala framleiðsluverðs nær yfir ÍSAT95 bálka C (námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu) og D (iðnaður) að undanskildum flokkum 22.1 (útgáfustarfsemi), 35.1 (skipa og bátasmíði) og 35.3 (smíði og viðgerðir loftfara).

Talnaefni