Skipt er um grunn vísitölunar í mars ár hvert. Nú hefur verið gefið út sérstakt hefti Hagtíðinda um vísitölu neysluverðs frá apríl 2005 til apríl 2006 og er þar að finna töfluyfirlit yfir þróun vísitölunnar og áhrif grunnskiptanna.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 5,5% frá apríl 2005 til jafnlengdar í ár. Verðbólgan hefur aukist síðustu mánuði, einkum vegna mikilla hækkana á eigin húsnæði og eldsneytisverði. Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,4%.

Við grunnskiptin í apríl 2006 voru m.a. gerðar breytingar á aðferðum við verðmælingu og útreikning á vísitölu millilandaflugs en verðsöfnunin nær nú eingöngu til netfargjalda. Þá var einnig breytt aðferðum við útreikning fasteignavísitölunnar, sem notuð er við útreikning á eigin húsnæði í vísitölu neysluverðs, þar sem enn betur er tekið tillit til gæðabreytinga en verið hefur. Ein meginbreytingin er sú að fasteignaverðsvísitalan er nú reiknuð sem afburðavísitala (Fischer).

Í heftinu er einnig fjallað um áform Hagstofunnar um að verðsöfnun vegna vísitölu neysluverðs skuli fara fram í a.m.k. eina viku um miðjan mánuð í stað tveggja fyrstu daga mánaðar eins og nú er. Þessi breyting er tilkomin vegna samþykktar ráðs Evrópusambandsins (reglugerð nr. 6998/06) um samræmingu á tíma verðsöfnunar fyrir samræmda vísitölu neysluverðs. Áformað er að breytingin muni koma til framkvæmda þegar reglugerðin tekur gildi í janúar 2008.

Vísitala neysluverðs apríl 2005–2006 - Hagtíðindi