Vísitala neysluverðs í apríl 2004 er 232,0 stig (maí 1988=100) og hækkaði um 0,56% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 225,9 stig, 0,44% hærri en í mars.
Verð á fötum og skóm hækkaði um 5,3% (vísitöluáhrif 0,29%) í kjölfar útsöluloka. Markaðsverð á húsnæði hækkaði um 1,4% (0,17%) og verð á bensíni og gasolíu hækkaði um 4,3% (0,16%).
Verð á tækjum, tómstundavörum og bókum lækkaði um 2,5% (0,12%) sem aðallega má rekja til fermingartilboða.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,2% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 1,2%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,8% sem jafngildir 3,3% verðbólgu á ári (án húsnæðis 2,5%).
Vísitalan í apríl er reist á nýjum grunni sem byggist á rannsókn á útgjöldum heimila árin 2000 - 2002. Að auki er stuðst við niðurstöður ársins 2003 fyrir vogir dagvöru í grunni vísitölunnar.
Þar sem grunnur vísitölunnar er nú endurnýjaður ár hvert með hliðsjón af útgjaldarannsókn Hagstofunnar verður ekki veruleg breyting á samsetningu útgjalda frá einu ári til annars.
Vísitala neysluverðs í apríl 2004, sem er 232,0 stig, gildir til verðtryggingar í maí 2004. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 4.581 stig fyrir maí 2004.