Athugasemd kl. 12:30, 29. apríl 2020
Tæknileg mistök voru gerð við innlestur gagna um undirvísitölur í talnaefni um vísitölu neysluverðs sem birtist á vef Hagstofu Íslands í morgun kl. 9, en vístala neysluverðs í heild var að öðru leyti rétt sem og fréttin hér fyrir neðan. Mistökin urðu til þess að tímabundið voru rangar upplýsingar um undirvísitölur í töflunni „Vísitala neysluverðs, undirvísitölur frá 2008“ (VIS01304.px). Þetta hefur nú verið lagfært í töflunni.

Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í apríl 2020, er 477,5 stig (maí 1988=100) og hækkar um 0,48% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 407,0 stig og hækkar um 0,57% frá mars 2020.

Matur hækkaði um 1,5% (áhrif á vísitöluna 0,20%), verð á bensíni og olíum lækkaði um 4,6% (-0,15%) og verð á nýjum bílum hækkaði um 2,3% (0,12%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,2% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 1,9%.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í apríl 2020, sem er 477,5 stig, gildir til verðtryggingar í júní 2020. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 9.428 stig fyrir júní 2020.

Breytingar á vísitölu neysluverðs 2019-2020
Maí 1988 = 100 Umreiknað til árshækkunar miðað við hækkun vísitölunnar
Vísitala Breytingar í
hverjum mánuði, %
Síðasta mánuð, % Síðustu 3 mánuði, % Síðustu 6 mánuði, % Síðustu12 mánuði, %
2019
Apríl467,00,44,54,43,33,3
Maí468,00,22,64,53,33,6
Júní469,80,44,73,92,63,3
Júlí468,8-0,2-2,51,63,03,1
Ágúst470,10,33,41,83,13,2
September470,50,11,00,62,23,0
Október472,20,44,42,92,22,8
Nóvember472,80,11,52,32,12,7
Desember473,30,11,32,41,52,0
2020
Janúar469,8-0,7-8,5-2,00,41,7
Febrúar474,10,911,61,11,72,4
Mars475,20,22,81,62,02,1
Apríl477,50,56,06,72,32,2

Uppfærðar grunnvogir
Vísitala neysluverðs í apríl er reiknuð á nýjum grunni, mars 2020, og byggist hann á niðurstöðum úr rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna 2016–2018 auk annarra heimilda svo sem opinberum skrám. Innbyrðis vægi dagvöruverslana tók óverulegum breytingum og hafði því ekki áhrif á verðmælingu mánaðarins. Endurnýjun grunnsins veldur sem slík ekki breytingum á vísitölunni á milli mars og apríl. Hlutfallslega skiptingu vísitölunnar á gömlum og nýjum grunni í mars 2020 má finna í meðfylgjandi minnisblaði.

Grunnskiptin nú eru liður í reglubundnum árlegum uppfærslum Hagstofu Íslands á samsetningu vísitölu neysluverðs. Tilgangurinn er að grunnur vísitölunnar endurspegli neyslu fólks í landinu við almennar aðstæður. Grunnurinn tekur því ekki sérstaklega mið af þeim óvenjulegu aðstæðum sem ríkja nú á Íslandi og um heim allan vegna útbreiðslu kórónaveirunnar (Covid-19).

Mæling vísitölu neysluverðs í ljósi aðstæðna vegna Covid-19
Hagstofa Íslands hefur opnað vefsíðu þar sem algengum spurningum er svarað um hvernig verðmælingum er háttað í vísitölu neysluverðs í ljósi aðstæðna vegna Covid-19.

Mæling og útreikningur á vísitölu neysluverðs í apríl gekk vel fyrir sig en varð þó fyrir áhrifum af þeim aðstæðum sem hafa skapast vegna Covid-19 og vegna viðbragða stjórnvalda til að halda aftur af útbreiðslu veirunnar. Áskoranir við verðmælingar felast í því að aðgengi neytenda að sumum neysluvörum og þjónustu er takmarkað. Til að mynda hafa samkomustaðir og ýmis þjónustustarfsemi þurft að loka vegna sérstakrar smithættu.

Verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs eru víðtækar og framkvæmdar á fjölbreyttan máta. Í hverjum mánuði er safnað upplýsingum af vefsíðum verslana, fyrirtækja og opinberra aðila. Einnig er hringt eftir upplýsingum, auk þess sem fyrirtæki senda inn upplýsingar um vöruverð í gegnum vefskil. Um langt skeið hefur verið unnið að framþróun rafrænna lausna við verðmælingar. Söfnun og nýting upplýsinga úr kassakerfum dagvöruverslana er meðal afurða þeirrar vinnu. Markmiðið er að í hverjum mánuði sé mælt verð með viðunandi hætti á öllum þeim fjölbreyttu vörum og þjónustu sem neytendur sækjast eftir í samræmi við það sem þeir hafa komið á framfæri í gegnum útgjaldarannsókn Hagstofu Íslands. Mánaðarlegar verðmælingar Hagstofunnar eru á bilinu 100-150 þúsund.

Margar vefverslanir hafa opnað á síðustu mánuðum og verslanir sem alla jafna taka á móti viðskiptavinum í verslun hafa margar hverjar flýtt uppsetningu vefsíðna til að greiða leið viðskiptavina við núverandi aðstæður. Til viðbótar hafa margir matsölustaðir gripið til þess ráðs að bjóða viðskiptavinum upp á heimsendingu eða að sækja mat þar sem slík þjónusta var ekki fyrir hendi áður. Allt hefur þetta nýst vel við verðmælingar og í mörgum tilvikum komið í stað verðmælinga sem óhægt hefði verið að koma við að öðrum kosti.

Þess ber þó að geta að þegar sértækum tegundum fyrirtækja er lokað og þjónusta þeirra ekki fáanleg annars staðar er ekki hægt að koma við mælingum. Nú í apríl hefur þetta til að mynda haft áhrif á starfsemi eins og hárgreiðslustofur, tannlæknaþjónustu, sjúkraþjálfun og fleira. Við þessar aðstæður er verðmæling fyrri mánaðar látin gilda áfram sem mæling næsta mánaðar. Sú mæling telst fullnægjandi enda engin verðþróun sem fer framhjá mælingu þar sem engin viðskipti fara fram. Verð er svo mælt að nýju þegar viðskipti hefjast á ný. Aðferðin er ein af alþjóðlega viðurkenndum matsaðferðum sem hægt er að grípa til þegar verðmæling fæst ekki. Aðrar aðferðir líta til þess að gefa vöru eða þjónustu verðbreytingu á skyldum neysluþáttum, en þá er einnig gengið út frá því að raunveruleg viðskipti hafi farið fram sem hafi farið framhjá verðmælingu.

Það er mat Hagstofu Íslands að nú í apríl hafi innan við 10% af grunni vísitölu neysluverðs verið metinn þar sem verðmælingum varð ekki við komið út af tímabundnum lokunum fyrirtækja vegna Covid-19.

Hagstofa Íslands hefur unnið í samvinnu við hagstofur í allri Evrópu og Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, að samræmdri nálgun við verðmat á vörum og þjónustu sem eru í takmörkuðu framboði eða ófáanlegar enda eru viðfangsefnin þau sömu í öðrum löndum.

Í allri starfseminni er leitast við að mæla verðlag eins nákvæmlega og unnt er hverju sinni. Þar sem fram koma mikil frávik frá eðlilegri verðþróun er tekið á því sérstaklega og því eru ekki reiknuð verðstökk í neysluflokkum þar sem viðskipti eru lítil eða engin.

Talnaefni