Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í apríl 2021, er 499,3 stig (maí 1988=100) og hækkar um 0,71% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 425,9 stig og hækkar um 0,38% frá mars 2021.

Reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,5% (áhrif á vísitöluna 0,40%) og matur og drykkjarvörur hækkuðu um 1,1% (0,16% en þar af voru mjólkurvörur 0,11%).

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,6% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 4,6%.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í apríl 2021, sem er 499,3 stig, gildir til verðtryggingar í júní 2021. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 9.859 stig fyrir júní 2021.

Breytingar á vísitölu neysluverðs 2020-2021
Maí 1988 = 100 Vísitala Mánaðarbreyting, % Ársbreyting, %
2020
Apríl 477,5 0,48 2,2
Maí 480,1 0,54 2,6
Júní 482,2 0,44 2,6
Júlí 482,9 0,15 3,0
Ágúst 485,1 0,46 3,2
September 487,0 0,39 3,5
Október 489,1 0,43 3,6
Nóvember 489,3 0,04 3,5
Desember 490,3 0,20 3,6
2021
Janúar 490,0 -0,06 4,3
Febrúar 493,4 0,69 4,1
Mars 495,8 0,49 4,3
Apríl 499,3 0,71 4,6

Uppfærðar grunnvogir
Vísitala neysluverðs í apríl er reiknuð á nýjum grunni, mars 2021. Endurnýjun grunnsins nú er liður í reglubundnum árlegum uppfærslum Hagstofu Íslands á samsetningu vísitölu neysluverðs. Þetta er gert svo samsetningin endurspegli sem best einkaneyslu á heimilum í landinu.

Nýi grunnurinn er byggður á niðurstöðum úr rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna eins og hefðbundið er. Til grundvallar eru mælingar áranna 2017-2019. Neysluhlutföll eru skoðuð yfir þriggja ára tímabil til þess að draga fram langtímaþróun á sama tíma og dregið er úr skammtímasveiflum í niðurstöðum.

Undanfarið ár hefur neyslumynstur fólks tekið óvenjumiklum breytingum vegna kórónuveirufaraldursins og viðbragða við honum. Þessu hafa m.a. fylgt hömlur á ferðalög til útlanda og aðgengi að ýmis konar þjónustu og viðburðum. Áhrifin hafa varað í rúmt ár án þess að það sjái fyrir endann á þeim þrátt fyrir jákvæðar horfur. Af þessum sökum var talið nauðsynlegt að taka tillit til ársins 2020 við mat á nýjum grunnvogum fyrir vísitölu neysluverðs til viðbótar við grunnheimildina. Það var m.a. gert með því að líta til heimilda um breytingar á einkaneyslu á árinu 2020 auk annarra heimilda.

Innbyrðis vægi dagvöruverslana, þ.e. þar sem hlutdeild lágvöruverðsverslana og verslana með hærra þjónustustig kemur fram, tók óverulegum breytingum og hafði því ekki áhrif á verðmælingu mánaðarins. Endurnýjun grunnsins veldur sem slík ekki breytingum á vísitölunni á milli mars og apríl. Hlutfallslega skiptingu vísitölunnar á gömlum og nýjum grunni í mars 2021 má finna í meðfylgjandi minnisblaði.

Talnaefni