Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í desember 2025, er 665,8 stig (maí 1988=100) og hækkar um 1,15% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 531,0 stig og hækkar um 1,45% frá nóvember 2025.
Flestum tilboðsdögum er nú lokið og því var hækkun í ýmsum flokkum sem lækkuðu í nóvember, m.a. fötum og skóm sem hækkuðu um 3,6% (áhrif á vísitöluna 0,13%). Hitaveita hækkaði um 9,2% (0,18%) og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 28,8% (0,53%).
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,5% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,8%.
Ársmeðaltal vísitölu neysluverðs árið 2025 var 653,1 stig, 4,1% hærra en meðalvísitala ársins 2024. Samsvarandi breyting var 5,9% árið 2024 og 8,8% 2023.
Ársmeðaltal vísitölu neysluverðs án húsnæðis árið 2025 var 523,1 stig, 3,0% hærra en meðalvísitala ársins 2024. Samsvarandi breyting var 3,8% árið 2024 og 7,8% 2023.
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í desember 2025, sem er 665,8 stig, gildir til verðtryggingar í febrúar 2026.
Nýjar töflur fyrir undirvísitölur í janúar 2026
Frá og með janúar 2026 verða útreikningar á vísitölu neysluverðs byggðir á flokkunarkerfi sem nefnist COICOP2018. Þetta kerfi er ný útgáfa af fyrra COICOP flokkunarkerfi sem hefur verið notað síðan 1997.
Almennir notendur vísitölu neysluverðs verða lítið varir við uppfærsluna, vísitala neysluverðs verður áfram gefin út á sama grunni og áður og töflur um hana og vísitölu neysluverðs til verðtryggingar verða óbreyttar.
Þar sem einhverjar breytingar verða á undirflokkum vísitölunnar verða hins vegar gefnar út nýjar töflur í stað þeirra sem innihalda undirvísitölur. Stefnt er að því að í kringum 8. janúar verði núverandi töflur fyrir undirvísitölur færðar undir eldra efni og í staðinn verði nýju töflurnar birtar með viðmiðunargögnum fyrir árið 2025. Nánari upplýsingar um breytingarnar má finna í meðfylgjandi skjali.
Ný útgáfa af flokkunarkerfi í vísitölu neysluverðs