FRÉTT VERÐLAG 30. JANÚAR 2024

Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í janúar 2024, er 607,3 stig (maí 1988=100) og lækkar um 0,16% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 495,4 stig og lækkar um 0,50% frá desember 2023.

Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,9% (áhrif á vísitöluna 0,18%). Kostnaður vegna rafmagns og hita hækkaði um 3,7% (0,12%).

Vetrarútsölur eru víða í gangi og lækkuðu föt og skór um 9,2% (-0,36%) og húsgögn og heimilisbúnaður o.fl. um 5,0% (-0,29%). Einnig lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 11,4% (-0,21%).

Athygli skal vakin á þeirri breytingu að í stað þess að taka inn verðbreytingar á „044 Annað vegna húsnæðis“ nú í janúar verður það gert í febrúar þegar fyrsta greiðsla skv. nýjum gjaldskrám fer yfirleitt fram. Undir þennan lið fellur sorphreinsun, holræsi og kalt vatn.

Niðurfelling á VSK-ívilnun af rafbílum hafði áhrif til hækkunar á verði þeirra en tekið var tillit til rafbílastyrkja Orkusjóðs við útreikninga.

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,7% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 5,2%.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í janúar 2024, sem er 607,3 stig, gildir til verðtryggingar í mars 2024.

Uppfærðar grunnvogir
Vísitala neysluverðs í janúar er reiknuð á nýjum grunni, desember 2023, og byggist hann á niðurstöðum úr rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna 2020-2022. Neysluhlutföll eru skoðuð yfir þriggja ára tímabil til þess að draga fram langtímaþróun á sama tíma og dregið er úr skammtímasveiflum í niðurstöðum. Jafnframt er litið til annarra heimilda, svo sem þjóðhagsreikninga, til að styrkja niðurstöður.

Endurnýjun grunnsins veldur sem slík ekki breytingum á vísitölunni á milli desember og janúar. Hlutfallslega skiptingu vísitölunnar á gömlum og nýjum grunni í desember 2023 má finna í meðfylgjandi minnisblaði.

Uppfærsla á grunnvogum hefur hingað til farið fram í apríl en héðan í frá er stefnt að því að hún fari fram í janúar ár hvert.

Endurskoðun aðferða við mat á húsnæðislið
Hagstofa Íslands hefur um nokkurt skeið unnið að endurskoðun aðferða við mat á reiknaðri leigu í vísitölu neysluverðs. Með betri gögnum um húsaleigu hafa nú skapast forsendur til þess að breyta um aðferð. Það er mat Hagstofunnar að aðferð leiguígilda endurspegli nú betur tilgang mælingarinnar og verður aðferðin innleidd í vísitöluna á vormánuðum. Leiguígildin eru byggð á tölfræðilegu líkani á grundvelli gagna um húsaleigu. Endanleg dagsetning á innleiðingu breytinganna verður birt í mars næstkomandi ásamt greinagerð um málið.





Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1200 , netfang neysluverd@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.