Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í janúar 2026, er 668,3 stig (maí 1988=100) og hækkar um 0,38% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 533,0 stig og hækkar um 0,38% frá desember 2025.
Útsölur eru nú í fullum gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 7,4% (áhrif á vísitöluna -0,27%) og verð á húsbúnaði, heimilistækjum o.fl. lækkaði um 5,4% (-0,23%). Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 10,8% (-0,27%) og verð á mat og óáfengum drykkjum hækkaði um 1,0% (0,15%).
Um áramótin voru gerðar ýmsar breytingar á gjöldum tengdum ökutækjum sem höfðu áhrif á vísitölu neysluverðs. Olíugjald og vörugjöld á eldsneyti voru lögð niður og kolefnisgjaldið var hækkað. Tekin voru upp kílómetragjöld fyrir öll ökutæki, vörugjöldum á ökutæki var breytt og rafbílastyrkurinn var lækkaður.
Bensínverð lækkaði um 27,4% (áhrif á vísitöluna -0,68%) og díselverð um 24,2% (-0,26%). Veggjöld hækkuðu um 633,4% (0,99%) vegna kílómetragjalda og verð á bifreiðum hækkaði um 13,3% (0,56%). Þar af mældist hækkun á rafbílum 6,4%, hækkun á tvinnbílum 16,3% og hækkun á bensín/díselbílum 19,8%.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,2% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 4,5%.
Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í janúar 2026, sem er 668,3 stig, gildir til verðtryggingar í mars 2026.
Grunnskipti og breyting yfir í COICOP2018
Vísitala neysluverðs í janúar er reiknuð á nýjum grunni, desember 2025, og byggist hann á niðurstöðum úr rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna 2022-2024 ásamt öðrum heimildum til stuðnings.
Neysluhlutföll eru skoðuð yfir þriggja ára tímabil til þess að draga fram langtímaþróun á sama tíma og dregið er úr skammtímasveiflum í niðurstöðum. Ef nýrri gögn benda til varanlegrar breytingar í ákveða átt er reynt að taka tillit til þess. Skýrasta dæmið um slíkt er sennilega grunnskólamáltíðir sem nú eru gjaldfrjálsar og hafa því enga vog þó svo að heimilin hafi greitt fyrir þær á því tímabili sem útgjaldarannsóknin nær yfir. Nánar má lesa um grunnskiptin í minnisblaði í lok fréttarinnar.
Vísitala neysluverðs er nú gefin út miðað við COICOP2018-flokkunarkerfið sem er ný útgáfa af kerfinu sem áður var notað við flokkun neysluútgjalda. Almennir notendur vísitölunnar sjálfrar verða ekki varir við uppfærsluna en nýjar töflur hafa verið gefnar út fyrir undirvísitölur og greiningarvísitölur þar sem einhverjar breytingar urðu á skiptingu í undirflokka. Nánari upplýsingar um breytingarnar má finna í skjali í lok fréttarinnar.
Hvernig á að tengja eldri undirvísitölur við þær nýju?
Hagstofan hefur bætt við upplýsingum um tengingar á milli vísitalna undir Spurt og svarað á vefsíðu stofnunarinnar.
Einnig verður boðið upp á stutta kynningu og spjall um tengingarnar á Hagstofunni næsta þriðjudag, 3. febrúar kl 13:00. Viðburðurinn er öllum opinn en til að taka þátt þarf að skrá sig með því að senda póst á neysluverd@hagstofa.is.
Minnisblað um grunnskipti 2026
Ný útgáfa af flokkunarkerfi í vísitölu neysluverðs