Vísitala neysluverðs í maí 2005 er 240,7 stig (maí 1988=100) og lækkaði um 0,54% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 227,4 stig, lækkaði um 0,39% frá því í apríl.
Hörð verðsamkeppni ríkir enn á matvörumarkaði og lækkaði verð á dagvöru um 4,0% (vísitöluáhrif -0,65%).
Eigið húsnæði í vísitölu neysluverðs lækkaði um 1,4% (-0,21%). Eins og greint var frá í frétt Hagstofunnar 3 maí sl. hefur Hagstofan breytt aðferð við útreikning vaxta af húsnæðislánum í vísitölunni. Miðast þeir nú við meðaltal síðustu tólf mánaða í stað 5 ára meðaltals áður. Þessi breyting leiddi til 0,45% lækkunar vísitölunnar. Auk þessa lækkaði þetta 12 mánaða meðaltal vaxtanna vísitöluna um sem svaraði 0,11% milli apríl og maí. Á móti kom 2,3% hækkun á markaðsverði húsnæðis (0,35%).
Verð á bensíni og olíum hækkaði um 3,8% (0,18%) og verð á fötum og skóm um 1,9% (0,10%).
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,9% en vísitala neysluverðs án húsnæðis er óbreytt frá maí 2004. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,4% sem jafngildir 1,7% verðbólgu á ári (2,1% verðhjöðnun fyrir vísitöluna án húsnæðis).
Vísitala neysluverðs í maí 2005, sem er 240,7 stig, gildir til verðtryggingar í júní 2005. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 4.753 stig fyrir júní 2005.