FRÉTT VINNUMAGN OG FRAMLEIÐNI 27. FEBRÚAR 2018

Hagstofan birtir nú í fyrsta sinn tölur um framleiðni vinnuafls í heild og eftir atvinnugreinum en á síðustu misserum hefur mikil vinna verið lögð í að ljúka þróunarverkefni um mat á fjölda starfa, fjölda starfandi og fjölda vinnustunda.

Vinnumarkaðstölfræði Hagstofunnar hefur fram að þessu byggst á umfangsmiklum úrtakstaksrannsóknum, svo sem launa- og vinnumarkaðsrannsókn, sem framkvæmdar eru með reglulegum hætti. Auk þess er notast við skráargögn eins og staðgreiðslu tekjuskatts einstaklinga og upplýsingar úr skattframtölum einstaklinga og fyrirtækja.

Tölfræði um vinnuafl í þjóðhagsreikningum byggir á alþjóðlegum stöðlum þjóðhagsreikninga og er ætlað að gefa heildarmynd af vinnuafli hverrar atvinnugreinar svo sem fjölda þeirra sem starfa í viðkomandi grein og fjölda unninna stunda allra starfsmanna á skilgreindu viðmiðunartímabili. Ólíkt mörgum öðrum áður útgefnum niðurstöðum um vinnuafl og vinnutíma byggja niðurstöður þjóðhagsreikninga á samnýtingu helstu gagnasafna Hagstofu, svo sem upplýsingum úr stjórnsýsluskrám, rannsóknum og könnunum, staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, skattframtölum einstaklinga og fyrirtækja, launarannsókn Hagstofu Íslands og vinnumarkaðsrannsókn. Aðhvarfsgreiningu er beitt í þeim tilgangi að meta unnar vinnustundir hvers starfandi einstaklings í heildarsafninu hvort sem viðkomandi telst launamaður eða sjálfstætt starfandi. Við matið er tekið tillit til ýmissa þekktra þátta sem hafa áhrif á fjölda unninna stunda, svo sem fjarvistir vegna veikinda, helgidaga, orlofs, endurmenntunar og töku fæðingarorlofs.

Að þessu sinni reyndist einungis unnt að vinna tölur aftur til ársins 2008 en stefnt er að því að birta sambærileg gögn lengra aftur í tímann síðar. Vegna þess hve tímaraðir eru stuttar í þessari fyrstu útgáfu er ekki tilefni til ítarlegrar greiningar á þróun vinnumarkaðarins og framleiðni vinnuafls. Þá er upphafsárið, 2008, erfitt til viðmiðunar þar sem miklar breytingar urðu á því ári og næstu ár á eftir er atvinnulíf og vinnumarkaður löguðu sig að nýju jafnvægi eftir mikið efnahagsáfall. Tölur um fjölda starfandi, starfa og vinnustunda eru birtar bæði sem árstölur niður á einstakar deildir samkvæmt ISAT 2008 atvinnugreinaflokkun Hagstofunnar og sem ársfjórðungstölur fram til 3. ársfjórðungs 2017, skipt niður á deildir samkvæmt atvinnugreinaflokkuninni. Tölur um framleiðni vinnuaflsins eru birtar sem árstölur niður á deildir fram til 2016.

Helstu vísbendingar í nýjum tölum
Tölur um fjölda starfa eru nú birtar í fyrsta sinn í samræmi við skilgreiningu þjóðhagsreikninga. Starf er ýmist starf launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings. Með starfi launamanns er átt við ráðningarsamband við atvinnurekenda um vinnuframlag í skiptum fyrir ákveðið endurgjald, en sjálfstætt starfandi einstaklingur greiðir sér laun sjálfur. Árið 2008 nam fjöldi starfa að meðaltali yfir árið í heild 181,5 þúsund og fækkaði fram til ársins 2010 þegar fjöldi starfa nam 164,7 þúsundum að meðaltali. Frá þeim tíma hefur fjöldi starfa vaxið jafnt og þétt og var kominn í 209,3 þúsund störf á þriðja ársfjórðungi 2017 en frá árslokum 2015 hefur störfum fjölgað um 4-5% á ári.



Hagstofan hefur birt niðurstöður um fjölda starfandi samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn og fjölda launþega úr stjórnsýsluskrám sem ná til launamanna. Unnið er að endurskoðun á talnaefni um fjölda starfandi byggt á stjórnsýsluskrám og munu þær ná til launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga og birtar eftir lýðfræðiupplýsingum eins og kyni, aldri og bakgrunni.

Þegar fjöldi starfandi er metinn miðað við þjóðhagsreikningastaðla og nýja aðferðafræði kemur í ljós heldur meiri samdráttur í kjölfar bankakreppunnar en niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknarinnar sýna. Þannig fer fjöldi starfandi úr 178,9 þúsund árið 2008 í 162,3 þúsund árið 2010 á sama tíma og vinnumarkaðsrannsóknin sýnir fækkun úr 179,9 þúsundum í 167,4 þúsund yfir sama tímabil. Frá árinu 2010 er fjölgun starfa miðað við þessa tvo mælikvarða nokkuð áþekk. Á þriðja ársfjórðungi 2017 er fjöldi starfandi kominn í 205 þúsund samkvæmt hinu nýja mati.

Fjöldi vinnustunda mælir heildarvinnuframlag í hagkerfinu og er sá mælikvarði sem yfirleitt er miðað við varðandi vinnuaflsþáttinn í verðmætasköpun hagkerfisins. Nýjar tölur um heildarfjölda unninna vinnustunda sýna talsvert lægri niðurstöðu en fyrri tölur sem byggja á gögnum vinnumarkaðsrannsóknar og liggur munurinn á bilinu 16-22% fyrir tímabilið 2008 til 2016. Þessi munur skýrist fyrst og fremst af þeim aðferðafræðilega mismun sem liggur til grundvallar. Vinnumarkaðsrannsóknin er könnun þar sem dregið er tilviljanakennt úrtak úr þjóðskrá og eru þeir sem lenda í úrtakinu spurðir um þátttöku á vinnumarkaði yfir ákveðið tímabil. Út frá niðurstöðum könnunarinnar er lagt mat á allmarga vinnumarkaðstengda þætti sem umreikna má til heildar. Nýju tölurnar byggja á annars konar aðferðafræði þar sem lagt er tölfræðilegt mat á vinnuframlag allra einstaklinga í þjóðfélaginu með samnýtingu upplýsinga úr stjórnsýsluskrám svo sem staðgreiðsluskrá og skattframtölum auk rannsókna og kannana, þ.m.t. vinnumarkaðs- og launarannsókna Hagstofunnar.

Það eru einkum tveir þættir sem gætu hugsanlega skýrt mismun þessara tveggja niðurstaðna. Annars vegar gætu þeir einstaklingar sem svara í úrtakskönnun vinnumarkaðsrannsóknarinnar gefið upp of margar vinnustundir. Í því sambandi hefur verið bent á að hefðbundin 40 stunda vinnuvika sé í raun styttri vegna kjarasamningsbundinna réttinda. Einnig er það þekkt að afstaða launamanna til lengdar vinnutíma getur haft áhrif á svör en hér á landi hefur langur vinnudagur þótt merki um eljusemi og starfsþrótt. Mikilvægt er að undirstrika að ekki liggja fyrir rannsóknir um þessi atriði og því einungis um tilgátur að ræða. Jafnframt gæti umfang ólaunaðrar vinnu eða svartrar starfsemi skýrt mismuninn að hluta, en svör þeirra sem spurðir eru með beinum hætti í vinnumarkaðsrannsókninni taka einnig til vinnuframlags vegna slíkrar starfsemi. Aðferðafræði við útreikning nýju talnanna tekur hinsvegar ekki á svartri starfsemi eða ólaunaðri vinnu enn sem komið er þó svo að þjóðhagsreikningastaðlar geri ráð fyrir slíku.

Eftir stendur að lækkun á fjölda heildarvinnustunda hefur í för með sér töluverða breytingu á stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði á verðmætasköpun miðað við vinnutíma. Hafa ber í huga að í mörgum tilvikum liggja ólíkar aðferðir að baki alþjóðlegs samanburðar en niðurstöður samkvæmt þjóðhagsreikningastaðlinum eiga að gera samanburð mögulegan. Mismunurinn sem hér kemur fram undirstrikar nauðsyn þess að vel sé hugað að þeim aðferðum sem beitt er og gerðar séu frekari rannsóknir á þeim

Framleiðni vinnuafls
Framleiðni í hagfræðilegum skilningi er mælikvarði á verðmætasköpun miðað við tiltekinn framleiðsluþátt eða aðföng. Ýmist er miðað við einn eða fleiri framleiðsluþátt og þá talað um einþátta- eða fjölþáttaframleiðni. Hefðbundnar framleiðnimælingar vísa ýmist til framleiðni vinnuafls, fjármagns eða hvorutveggja og jafnvel til fleiri þátta svo sem orku eða náttúruauðlinda. Oftast nær er miðað við raungildi vergrar landsframleiðslu eða vergar þáttatekjur einstakra atvinnugreina sem mælikvarða á verðmætasköpun.

Skortur á tölum um vinnumagn sem samræmist þjóðhagsreikningum hefur hamlað birtingu á tölfræði um framleiðniþróun, sérstaklega í einstökum atvinnugreinum. Þjóðhagsstofnun vann og birti á sínum tíma tölur um vinnumagn í einstökum atvinnugreinum á grundvelli gagna um slysatryggðar vinnuvikur. Sú vinna var lögð af árið 1997. Með nýjum tölum um heildarfjölda vinnustunda er kominn grundvöllur til að birta tölfræði um framleiðni og er það nú gert í fyrsta sinn. Framleiðni vinnuafls er birt sem vísitala á ársgrundvelli reiknuð út frá magnvísitölu vergra þáttatekna og fjölda vinnustunda í heild og niður á einstaka bálka samkvæmt ISAT 2008 atvinnugreinaflokkun Hagstofunnar.
Magnvísitölur vergra þáttatekna eru birtar reglulega sem hluti af framleiðsluuppgjöri þjóðhagsreikninga og sýna verðmætasköpun í einstökum atvinnugreinum á föstu verðlagi. Rétt er að hafa í huga að tölur fyrir árið 2016 eru bráðabirgðatölur sem verða endurskoðaðar út frá nýjum gögnum við birtingu þjóðhagsreikninga 9. mars næstkomandi.

Tölur um framleiðni vinnuafls fyrir tímabilið 2008–2016 sýna þróun sem mótast af þeim sérstöku aðstæðum sem ríkt hafa í íslensku efnahagslífi á undanförnum árum. Þannig hækkar framleiðnin í heild um rúm 7% milli 2008 og 2009 en lækkar síðan næstu árin þar á eftir og hækkar svo með vaxandi hraða frá 2014.

Svo virðist sem fyrirtæki hafi náð að bregðast við samdrætti í kjölfar bankakreppunnar með umtalsverðri hagræðingu þannig að afköst á hverja vinnustund hafi aukist til að byrja með en síðan hafi heldur dregið úr eftir því sem á leið. Auknum hagvexti síðustu ára hefur síðan fylgt aukin framleiðni vinnuafls.

 

Að baki þessarar þróunar er mjög ólík framvinda í einstökum atvinnugreinum. Þær greinar sem skera sig mest úr eru fjármálastarfsemi auk landbúnaður og fiskveiða. Athygli vekur hversu mikið dregur úr framleiðni í fjármála- og vátryggingarstarfsemi sem skýrist fyrst og fremst af þróun vergra þáttatekna í þessum greinum. Hvað bankakerfið varðar meta þjóðhagsreikningar verðmætasköpun út frá umfangi vaxtamunar og þóknunartekna og –gjalda en líta framhjá áhrifum endurmats eignarsafna á mælda afkomu. Við þær aðstæður sem hér hafa ríkt á undaförnum árum þar sem áhrif slíks endurmats hafa að verulegu leyti mótað umfang og afkomu greinarinnar má ef til vill segja að matsaðferð þjóðhagsreikninga gefi ófullkomna mynd af þróuninni. Þegar horft er fram á veginn má þó spyrja hvort breytinga sé að vænta þar sem fjöldi vinnustunda í greininni hefur farið hratt minnkandi á síðustu árum.

Önnur atvinnugrein sem einnig sker sig úr er landbúnaður og fiskveiðar þar sem framleiðni vinnuafls lækkar umtalsvert fram til ársins 2011 en hækkar eftir það. Skýringin er fyrst og fremst minnkandi framleiðsla í fiskveiðum 2009–2011 án þess að mikil breyting verði í vinnuaflsnotkun sem reyndar vex töluvert frá 2008–2010. Í þessu sambandi má benda á að mikil breyting varð á rekstrarskilyrðum í sjávarútvegi eftir fjármálaáfallið þegar gengi krónunnar féll mikið. Við slíkar aðstæður þarf ekki að koma á óvart að vinnuaflseftirspurn aukist þrátt fyrir samdrátt í framleiðslumagni enda afkoma í sjávarútvegi sjaldan verið betri en á þessum árum.

Byggingarstarfsemi er atvinnugrein sem hefur sveiflast mikið í gegnum tíðna og hefur einnig gert það á undanförnum árum. Hinsvegar hefur framleiðni vinnuafls að því er virðist þróast með fremur jákvæðum hætti frá árinu 2008 þar sem þróunin hefur einkennst af minnkandi vinnuaflsnotkun umfram samdráttar í verðmætasköpun. Viðsnúningur varð árið 2013 en frá þeim tíma hefur framleiðslan aukist hraðar en vinnuaflsnotkunin og framleiðnin því aukist enn frekar.

Vaxtagreinar tengdar ferðaþjónustu og tæknigreinum koma skýrt fram í framleiðnitölunum. Framleiðni vinnuafls í verslun, samgöngum, flutningastarfsemi og gisti- og veitingaþjónustu hefur vaxið umtalsvert allt tímabilið og upplýsinga- og fjarskipagreinar hafa þróast með svipuðum hætti. Það er einna helst starfsemi hins opinbera sem dregist hefur aftur úr í samanburði við aðrar greinar enda gefur slík starfsemi ekki eins auðveldlega færi á aukinni framleiðni en greinar þar sem samkeppnisumhverfi er ríkjandi.

Talnaefni (sjá Vinnumagn og framleiðni vinnuafls)

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang thjodhagsreikningar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.