FRÉTT VINNUMARKAÐUR 20. JÚLÍ 2005


Atvinnuleysi 3,0%
Á öðrum ársfjórðungi 2005 voru að meðaltali 5.000 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 3,0% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 2,8% hjá körlum en 3,2% hjá konum. Atvinnuleysið var mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 8,5%. Rúmlega helmingur atvinnulausra var í þessum aldurshópi, eða 2.600 manns og af þeim voru rúmlega 80% einnig í námi.

Á öðrum ársfjórðungi 2004 mældist atvinnuleysi 4,0%. Atvinnuleysi karla var þá 5,2% en 2,7% hjá konum. Atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 16-24 ára mældist 11,9%.

Starfandi fólk 163.800 og atvinnuþátttaka 83,5%
Fjöldi starfandi á öðrum ársfjórðungi 2005 var 163.800 manns sem er fjölgun um 5.900 frá sama tíma ári áður. Á vinnumarkaði voru alls 168.900 manns sem jafngildir 83,5% atvinnuþátttöku. Atvinnuþátttaka karla var 88,0% en kvenna 78,9%. Til þeirra sem eru á vinnumarkaði teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir.

Á öðrum ársfjórðungi 2004 mældist atvinnuþátttaka 82,6%, 87,6% hjá körlum og 77,5% hjá konum. Fólki á vinnumarkaði fjölgaði um 4.200 manns frá öðrum fjórðungi fyrra árs til jafnlengdar á þessu ári, mest í aldurshópnum 16-24 ára og 55-74 ára.

Vinnutími 43,1 klst. á viku
Á öðrum ársfjórðungi 2005 var meðalfjöldi vinnustunda 43,1 klst. hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 48,6 klst. hjá körlum en 36,4 klst. hjá konum.

Á öðrum ársfjórðungi 2004 var fjöldi vinnustunda 42,2 klst., 47,4 klst. hjá körlum en 36,0 klst. hjá konum.

Framkvæmd
Frá og með ársbyrjun 2003 hefur Hagstofan stundað samfellda vinnumarkaðsrannsókn sem gefur niðurstöður fyrir hvern ársfjórðung. Annar ársfjórðungur 2005 nær til 13 vikna, frá 4. apríl til 3. júlí 2005.    Heildarúrtakið var 3.922 manns á aldrinum 16–74 ára sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Þegar frá eru taldir þeir, sem voru látnir eða búsettir erlendis, reyndist nettóúrtakið vera 3.829 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 3.064 einstaklingum sem jafngildir 80,0% endanlegri svörun. Allar tölur hafa verið vegnar eftir kyni og aldri. Skekkjumörk á niðurstöðum um atvinnuleysi eru ± 0,8%.

Helstu skilgreiningar og aðferð við vigtun

Talnaefni 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.