Starfandi fólki fjölgar um 4,7%, mest á Austurlandi um 17,6%
Fjöldi starfandi árið 2005 var 164.880 manns en árið 2004 var fjöldi starfandi 157.470 manns samkvæmt staðgreiðsluskrá Hagstofu Íslands. Starfandi fólki fjölgaði milli ára um 4,7%. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði starfandi um 5,2% en utan höfuðborgarsvæðisins fjölgaði þeim um 4,6%. Starfandi fólki fjölgaði mest á Austurlandi, eða um 17,6% en fækkaði mest á Vestfjörðum, eða um 0,6%.


Starfandi fólki fækkar við frumvinnslu en fjölgar í iðngreinum og þjónustu
Við frumvinnslugreinar störfuðu 8.460 manns árið 2005, 38.160 manns störfuðu við iðngreinar og 118.240 manns störfuðu við þjónustugreinar.

Milli áranna 2004 og 2005 fækkaði þeim sem störfuðu við frumvinnslugreinar um 4,5%. Þeim sem störfuðu við fiskveiðar fækkaði um 8,5% en fjölgaði um 0,2% í landbúnaði.

Starfandi fólki í iðngreinum fjölgaði um 3,1% milli áranna 2004 og 2005. Fjölgunin var aðeins í mannvirkjagerð (17,1%) en fækkaði í öllum öðrum iðngreinum.

Þeim sem starfa við þjónustu fjölgaði um 6,0% milli áranna 2004 og 2005. Mest aukning átti sér stað í samgöngum og flutningum (13,1%) og í fasteigna- og viðskiptaþjónustu (7,8%).

Mikil fjölgun starfandi fólks við mannvirkjagerð á Austurlandi
Starfandi fólki við frumvinnslugreinar fækkaði mun meira á höfuðborgarsvæðinu en utan þess milli áranna 2004 og 2005. Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði starfandi um 10,3% en um 2,8% utan höfuðborgarsvæðisins.

Þeim sem störfuðu við iðngreinar fjölgaði um 0,1% á höfuðborgarsvæðinu en 7,4% utan þess milli áranna 2004 og 2005. Mest aukning var á Austurlandi eða 37,4% og þar af meira en tvöfaldaðist fjöldi starfandi við mannvirkjagerð.

Í þjónustu fjölgaði um 6,9% á höfuðborgarsvæðinu en um 4,7% utan þess milli áranna 2004 og 2005.

Körlum fjölgaði meira á vinnumarkaði en konum
Af heildarfjölda starfandi árið 2005 voru karlar heldur fleiri en konur eða 52,6%. Körlum fjölgaði meira en konum frá árinu 2004 eða um 5,4% á móti 4,0%. Starfandi 45 ára og yngri fjölgaði um 4.720 manns milli áranna 2004 og 2005, eða um 4,9%. Starfandi eldri en 45 ára fjölgaði hins vegar um 2.760 manns eða 4,5%.

Skýringar
Staðgreiðsluskrá Hagstofunnar byggir á upplýsingum frá ríkisskattstjóra um staðgreiðsluskyldar greiðslur. Í þessari samantekt er starfandi fólk skilgreint sem allir þeir sem fá greidd laun sem eru staðgreiðsluskyld.

Aðalatvinnugrein hvers starfandi manns telst vera sú atvinnugrein sem skilar hæstum tekjum í hverjum mánuði, ef fleiri en ein grein kemur til greina.

Búseta er miðuð við búsetu einstaklings fyrsta hvers mánaðar en ekki aðsetur launagreiðanda.
Aldur er miðaður við þann aldur sem viðkomandi einstaklingur nær í árslok. Enginn sem er yngri en tólf ára í árslok telst hafa atvinnutekjur.

Talnaefni