Niðurstöður starfaskráningar Hagstofunnar benda til þess að um 3.500 störf hafi verið laus á íslenskum vinnumarkaði á fyrsta ársfjórðungi 2019 en á sama tíma hafi um 228.300 störf verið mönnuð. Hlutfall lausra starfa var því rétt um 1,5%.

Hagstofan birtir nú í fyrsta skiptið tölur um fjölda og hlutfall lausra starfa á íslenskum vinnumarkaði. Um er að ræða bráðabirgðatölur byggðar á gögnum úr starfaskráningu Hagstofunnar sem er ársfjórðungsleg úrtaksrannsókn meðal lögaðila.

Mæling Gildi1 Staðalvilla2 Neðri mörk3 Efri mörk3
Fjöldi lausra starfa 3.500 600 2.300 4.700
Fjöldi starfa 228.300 12.200 204.300 252.300
Hlutfall lausra starfa 1,5 0,2 1,0 2,0

1Talningar eru rúnnaðar að næsta hundraði eða næsta þúsundi.
2Staðavilla mælingar vísar til breytileika í mælingu milli úrtaka.
3Neðri og efri vikmörk mælinga vísa til spannar öryggisbilsins í kringum meðaltalið. Í endurteknum úrtökum mun þýðistalan falla innan örygissbilsins í 95% tilvika.

Um gögnin
Meginmarkmið starfaskráningar Hagstofunnar er að safna upplýsingum um fjölda lausra starfa og fjölda starfsmanna hjá lögaðilum sem greiða laun á Íslandi. Starfaskráning (e. Job Vacancy Survey) er framkvæmd í samræmi við reglugerð nr. 453/2008 sem er í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. Tölur eru þannig samanburðarhæfar við tölur um laus störf innan Evrópu (sjá hér).

Starfaskráningin er framkvæmd ársfjórðungslega á fyrirfram ákveðnum tímapunkti sem jafnan er um miðbik hvers ársfjórðungs.

Á fyrsta árfjórðungi 2019 var viðmiðunardagur fyrir laus störf 15. febrúar. Þessi dagur er því álitinn dæmigerður fyrir ársfjórðunginn.

Þýði rannsóknarinnar nær til allra lögaðila á íslenskum vinnumarkaði sem eru með fleiri en einn starfsmann í vinnu. Úrtak starfaskráningar er tekið einu sinni á ári í byrjun hvers árs. Úrtaksramminn nær til allra lögaðila sem höfðu að meðaltali fleiri en einn starfsmann í vinnu á mánuði árið áður og sem ekki höfðu verið afskráðir á úrtaksdegi, valdir með slembivali kennitalna úr fyrirtækjaskrá Hagstofunnar. Úrtakseining könnunarinnar og grunneining úrtaksrammans er með að minnsta kosti einn starfsmann.

Við gerð úrtaks voru atvinnurekendur flokkaðir í fjóra stærðarflokka (9 eða færri starfmenn, 10-49 starfsmenn, 50-249 starfsmenn, 250 starfsmenn eða fleiri) og tíu ISAT 2008 atvinnugreinabálka ([A], [B, C, D, E], [F], [G, H, I], [J], [K], [L], [M, N], [O, P, Q], [R, S]). Úrtakið var því næst valið eftir stærð fyrirtækisins innan atvinnugreinabálkanna þar sem atvinnurekendur með 250 starfsmann og fleiri (stórir atvinnurekendur) fengu úrtakslíkurnar 1. Úrtakslíkur minnka svo eftir stærð fyrirtækja. Þessi úrtaksaðferð felur í sér að úrtak miðlungs stórra, lítilla og öratvinnurekenda er endurnýjað á hverju ári, en lögaðilar sem tilheyra hópi stærstu lögaðilanna eru alltaf hluti af úrtaki starfaskráningar. Í úrtak starfaskráningar á fyrsta ársfjórðungi 2019 völdust 608 lögaðilar.

Gögnum var safnað á tímabilinu 18. febrúar til 4. apríl 2019 með vefskráningarformi. Þegar frá eru taldir lögaðilar sem höfðu verið afskráðir eða runnið saman við aðrar skipulagsheildir reyndist nettóúrtakið vera 601 lögaðilar. Af þeim svöruðu 561 sem gerir 93% svarshlutfall.Við úrvinnslu eru gögn vegin eftir úrtakslíkum, atvinnugreinaflokkum og stærð.