Laus störf á íslenskum vinnumarkaði voru um 2.600 á öðrum ársfjórðungi 2020 samkvæmt starfaskráningu Hagstofu Íslands. Á sama tíma voru um 198.700 störf mönnuð og hlutfall lausra starfa því 1,3% (sjá töflu 1).
Borið saman við fyrsta ársfjórðung 2020 fækkaði lausum störfum um 300 en hlutfall lausra starfa hefur haldist óbreytt. Borið saman við annan ársfjórðung 2019 má sjá að nú voru 3.600 færri störf laus og lækkaði hlutfall lausra starfa um 1,4%.
Þegar fjöldi starfa er skoðaður eftir ársfjórðungum (mynd 1) má sjá að á öðrum ársfjórðungi 2020 voru 27.200 færri störf mönnuð en á öðrum ársfjórðungi 2019. Jafnframt hefur fjöldi starfa aldrei verið lægri í starfaskráningu Hagstofunnar sem hófst á fyrsta ársfjórðungi 2019. Má hér líklega kenna áhrifa kórónaveirunnar (Covid-19) á íslenskan vinnumarkað.
Mæling | Gildi1 | Staðalvilla2 | Neðri mörk3 | Efri mörk3 |
Fjöldi lausra starfa | 2.600 | 600 | 1.500 | 3.700 |
Fjöldi starfa | 198.700 | 7.000 | 184.900 | 212.500 |
Hlutfall lausra starfa | 1,3 | 0,3 | 0,7 | 1,8 |
1 Tölur eru námundaðar að næsta hundraði.
2 Staðalvilla mælingar vísar til breytileika í mælingu á milli úrtaka.
3 Neðri og efri vikmörk mælinga vísa til spannar öryggisbilsins í kringum meðaltalið. Í endurteknum úrtökum mun þýðistalan falla innan öryggisbilsins í 95% tilvika.
Um gögnin
Starfaskráning Hagstofu Íslands er ársfjórðungsleg úrtaksrannsókn meðal íslenskra lögaðila. Þýðið nær til allra lögaðila á íslenskum vinnumarkaði sem eru að meðaltali með fleiri en einn starfsmann í vinnu á ársgrundvelli. Valið er í úrtak einu sinni á ári í byrjun hvers árs á grundvelli fyrirtækjaskrár ársins á undan. Viðmiðunardagur starfaskráningar fyrir annan ársfjórðung 2020 var 15. maí og var svarhlutfall 95%.
Þar sem upplýsingar um þýði lögaðila berast Hagstofunni á fyrstu mánuðum hvers árs geta tölur fyrir fyrsta ársfjórðung tekið breytingum um leið og vigtir eru endurreiknaðar á grundvelli betri þýðisupplýsinga. Þetta þýðir að búast má við lítilsháttar breytingum á tölum fyrsta ársfjórðungs um leið og tölur fyrir annan ársfjórðung eru birtar. Í samræmi við þetta hafa veftöflur fyrir fyrsta ársfjórðung 2020 nú verið uppfærðar.
Einnig hefur flokkun fyrirtækja í ferðaþjónustu verið uppfærð í tölum um laus störf til að tryggja samræmi við aðrar birtar tölur Hagstofunnar. Flokkunin er nú í samræmi við flokkun fyrirtækja í atvinnugreinum ferðaþjónustu innan evrópska hagskýrslusamstarfsins. Hægt er að lesa nánar um flokkun atvinnugreina í lýsigögnum starfaskráningar.