Áætlað er að 7.600 (±1.700) störf hafi verið laus á öðrum ársfjórðungi 2021 samkvæmt starfaskráningu Hagstofu Íslands. Á sama tíma voru um 183.300 (±10.900) störf mönnuð á íslenskum vinnumarkaði og hlutfall lausra starfa því 4,0% (±0,8).

Samanburður við 2020 sýnir að 5.100 fleiri störf voru laus á öðrum ársfjórðungi 2021 en á sama tímabili 2020. Mönnuðum störfum fækkaði um 6.700 á milli ára og hlutfall lausra starfa hækkaði um 2,7 prósentustig

Borið saman við fyrsta ársfjórðung 2021 fjölgaði lausum störfum um 4.000 á milli ársfjórðunga og jókst fjöldi mannaðra starfa um 700. Hlutfall lausra starfa hækkaði um 2,1 prósentustig á milli ársfjórðunga.

Niðurstöður starfaskráningar sýna að hæsta hlutfall lausra starfa á öðrum ársfjórðungi 2021 var í ferðaþjónustu og tengdum greinum eða 11,8% (±4,0). Áætlað er að 17.900 hafi verið starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu og laus störf verið 2.400. Á mynd 3 má sjá þróun á fjölda mannaðra og lausra starfa í einkennandi greinum ferðaþjónustu frá ársbyrjun 2019. Samanburður á niðurstöðum annars ársfjórðungs 2021 og 2020 sýnir að fjöldi mannaðra starfa jókst um 4.300 á milli ára og lausum störfum fjölgaði um 2.200.

Niðurstöður starfaskráningar á öðrum ársfjórðungi 2021
Mæling Gildi1 Staðalvilla2 Neðri mörk3 Efri mörk3
Fjöldi lausra starfa 7.600 900 6.000 9.300
Fjöldi mannaðra starfa 183.300 5.500 172.400 194.200
Hlutfall lausra starfa 4,0 0,4 3,2 4,8

1 Tölur eru námundaðar að næsta hundraði.
2 Staðalvilla mælingar vísar til breytileika í mælingu á milli úrtaka.
3 Neðri og efri vikmörk mælinga vísa til spannar öryggisbilsins í kringum meðaltalið. Í endurteknum úrtökum mun þýðistalan falla innan öryggisbilsins í 95% tilvika.

Um gögnin
Starfaskráning Hagstofu Íslands er ársfjórðungsleg úrtaksrannsókn á meðal íslenskra lögaðila. Þýðið nær til allra lögaðila á íslenskum vinnumarkaði sem eru með fleiri en einn starfsmann í vinnu. Valið er í úrtak einu sinni á ári í byrjun hvers árs á grundvelli fyrirtækjaskrár ársins á undan. Viðmiðunardagur starfaskráningar fyrir annan ársfjórðung 2021 var 15. maí og svarhlutfall var 91%.

Um er að ræða bráðabirgðartölur sem geta tekið breytingum með bættum þýðisupplýsingum. Við túlkun þarf einnig að hafa í huga að um úrtaksrannsókn er að ræða og að fjöldi mannaðra starfa samkvæmt starfaskráningu er punktmat á fjölda starfa á ákveðnu viðmiðunartímabili. Því þarf að hafa öryggisbil til hliðsjónar við túlkun á niðurstöðum.

Talnaefni