Áætlað er að 8.380 störf hafi verið laus á þriðja ársfjórðungi 2021 samkvæmt starfaskráningu Hagstofu Íslands. Á sama tíma voru um 222.797 störf mönnuð á íslenskum vinnumarkaði og hlutfall lausra starfa því 3,6%, sjá öryggisbil í töflu að neðan.
Frá öðrum ársfjórðungi 2021 fækkaði lausum störfum um 160 og hlutfall lausra starfa lækkaði um 0,4 prósentustig.
Miðað við sama tímabil 2020 voru 5.400 fleiri störf laus og hækkaði hlutfall lausra starfa um 2,2 prósentustig á milli ára.
Niðurstöður starfaskráningar á þriðja ársfjórðungi 2021 | ||||
Mæling | Gildi1 | Staðalvilla2 | Neðri mörk3 | Efri mörk3 |
Fjöldi lausra starfa | 8.380 | 890 | 6.630 | 10.130 |
Hlutfall lausra starfa | 3,6 | 0,3 | 2,4 | 3,9 |
Fjöldi mannaðra starfa4 | 222.797 |
1Tölur eru námundaðar að næsta tug.
2Staðalvilla mælingar vísar til breytileika í mælingu á milli úrtaka.
3Neðri og efri vikmörk mælinga vísa til spannar öryggisbilsins í kringum meðaltalið. Í endurteknum úrtökum mun þýðistalan falla innan öryggisbilsins í 95% tilvika.
4Fjöldi starfandi samkvæmt skrám úr gögnum Hagstofu Íslands frá öðrum ársfjórðungi 2021.
Um gögnin
Starfaskráning Hagstofu Íslands er ársfjórðungsleg úrtaksrannsókn á meðal íslenskra lögaðila. Þýðið nær til allra lögaðila á Íslandi sem eru með fleiri en einn starfsmann í vinnu. Valið er í úrtak einu sinni á ári í byrjun hvers árs á grundvelli fyrirtækjaskrár ársins á undan. Viðmiðunardagur starfaskráningar fyrir þriðja ársfjórðung 2021 var 15. ágúst og svarhlutfall var 94%.
Á þriðja ársfjórðungi 2021 voru gerðar breytingar á úrvinnslu starfaskráningar Hagstofunnar. Til að auka áreiðanleika á tölum um fjölda mannaðra starfa eru upplýsingar nú fengnar úr skráarbundnum gögnum um fjölda starfandi í stað þess að nota punktmat úr rannsókninni líkt og hefur verið gert hingað til. Fjöldi starfandi í ágúst samkvæmt skrám eru notaðar sem bráðarbirgðatölur fyrir þriðja ársfjórðung 2021 en talnaefni verður uppfært með meðaltali þriðja ársfjórðungs þegar öll gögn ársfjórðungsins liggja fyrir.
Tímaraðir á vef Hagstofunnar hafa verið uppfærðar í samræmi við breyttar aðferðir.
Við túlkun á fjölda og hlutfalli lausra starfa þarf að hafa í huga að um úrtaksrannsókn er að ræða. Því þarf að hafa 95% öryggisbil til hliðsjónar við túlkun á niðurstöðum.