FRÉTT VINNUMARKAÐUR 13. NÓVEMBER 2025

Alls voru 4.980 störf laus á íslenskum vinnumarkaði á þriðja ársfjórðungi 2025 samkvæmt starfaskráningu Hagstofu Íslands. Á sama tíma voru um 249.820 störf mönnuð og hlutfall lausra starfa því 2,0% (sjá öryggisbil í töflu).

Lausum störfum fækkaði um 160 á milli ársfjórðunga og hlutfall lausra starfa lækkaði um 0,1 prósentustig. Samanburður við þriðja ársfjórðung 2024 sýnir að lausum störfum fækkaði um 1.280 á milli ára og hlutfall lausra starfa dróst saman um 0,5 prósentustig.

Um gögnin
Starfaskráning Hagstofu Íslands er ársfjórðungsleg úrtaksrannsókn sem nær til allra lögaðila á Íslandi sem eru með fleiri en einn starfsmann í vinnu á viðmiðunardegi rannsóknarinnar. Úrtakið er valið í byrjun árs á grundvelli upplýsinga úr fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands frá árinu á undan.

Viðmiðunardagur starfaskráningar fyrir þriðja ársfjórðung 2025 var 15. ágúst. Alls fengust 629 svör og var svarhlutfall 91,2%. Niðurstöður eru bráðabirgðartölur og verða endurskoðaðar.

Upplýsingar um fjölda mannaðra starfa byggja á staðgreiðslugögnum sem eru bráðabirgðatölur þangað til tólf mánuðir hafa liðið frá viðmiðunartímabili. Eftir þann tíma eru þær festar og metnar áreiðanlegar. Fyrirhugað er að endurskoða tölurnar á þriggja ára fresti ef markverðar breytingar hafa orðið á eldri tölum.

Við túlkun á fjölda og hlutfalli lausra starfa þarf að hafa í huga að um úrtaksrannsókn er að ræða. Því þarf að hafa 95% öryggisbil til hliðsjónar við túlkun á niðurstöðum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.