Laus störf voru um 2.800 á fjórða ársfjórðungi 2020 samkvæmt starfaskráningu Hagstofu Íslands. Á sama tíma voru um 203.900 störf á íslenskum vinnumarkaði og hlutfall lausra starfa því 1,3%.
Samanburður við 2019 sýnir að laus störf voru 300 fleiri á fjórða ársfjórðungi 2020 en á sama tímabili 2019. Störf voru 12.900 færri en hlutfall lausra starfa hækkaði um 0,1 prósentustig á milli ára.
Borið saman við þriðja ársfjórðung 2020 fækkaði lausum störfum um eitt hundrað og fjöldi starfa jókst um 8.500. Hlutfall lausra starfa lækkaði um 0,2 prósentustig á milli ársfjórðunga.
Niðurstöður starfaskráningar á fjórða ársfjórðungi 2020 | ||||
Mæling | Gildi1 | Staðalvilla2 | Neðri mörk3 | Efri mörk3 |
Fjöldi lausra starfa | 2.800 | 400 | 1.900 | 3.600 |
Fjöldi starfa | 203.900 | 16.600 | 172.500 | 235.300 |
Hlutfall lausra starfa | 1,3 | 0,2 | 0,9 | 1,7 |
1 Tölur eru námundaðar að næsta hundraði.
2 Staðalvilla mælingar vísar til breytileika í mælingu á milli úrtaka.
3 Neðri og efri vikmörk mælinga vísa til spannar öryggisbilsins í kringum meðaltalið. Í endurteknum úrtökum mun þýðistalan falla innan öryggisbilsins í 95% tilvika.
Breytt flokkun á einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi
Flokkun rekstraraðila þar sem aðalstarfsemi er rekstur heilsulinda og jarðbaða hefur verið samræmd og eru þau fyrirtæki nú öll flokkuð í atvinnugrein 96.04.0 með nuddstofum, sólbaðsstofum, gufuböðum o.þ.h. Samhliða voru gerðar breytingar á skilgreiningu einkennandi greina ferðaþjónustu til birtingar á Íslandi.
Útgáfur á tölfræði um einkennandi greinar ferðaþjónustu hafa fylgt skilgreiningu hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Ákveðnar atvinnugreinar á Íslandi sem byggja tekjur sínar nær eingöngu á ferðaþjónustu falla þó utan skilgreiningar Eurostat. Til að gefa sem besta mynd af þróun og umsvifum ferðaþjónustu hérlendis verður framvegis birt tölfræði um einkennandi greinar ferðaþjónustu á Íslandi sem nær einnig til atvinnugreina 52.23.0 – Þjónustustarfsemi tengd flutningi með flugi og 96.04.0 – Nuddstofur, sólbaðsstofur, gufuböð o.þ.h.
Talnaefni starfaskráningar hefur nú verið uppfært aftur til fyrsta ársfjórðungs 2019 í samræmi við breytta flokkun á einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi. Niðurstöður starfaskráningar eru vigtaðar eftir úrtakslíkum, atvinnugreinaflokkum og stærð fyrirtækja sem fengnar eru úr fyrirtækjaskrá. Vegna breyttrar flokkunar og uppfærslu á vogum voru eldri niðurstöður starfaskráningarinnar endurskoðaðar. Sú endurskoðun leiddi af sér lítilsháttar breytingar á áður útgefnu talnaefni starfaskráningar.
Um gögnin
Starfaskráning Hagstofu Íslands er ársfjórðungsleg úrtaksrannsókn á meðal íslenskra lögaðila. Þýðið nær til allra lögaðila á íslenskum vinnumarkaði sem eru með fleiri en einn starfsmann í vinnu. Valið er í úrtak einu sinni á ári í byrjun hvers árs á grundvelli fyrirtækjaskrár ársins á undan. Viðmiðunardagur starfaskráningar fyrir fjórða ársfjórðung 2020 var 15. nóvember og svarhlutfall var 95%.