FRÉTT VINNUMARKAÐUR 10. FEBRÚAR 2022

Áætlað er að 5.400 störf hafi verið laus á fjórða ársfjórðungi 2021 samkvæmt starfaskráningu Hagstofu Íslands. Á sama tíma voru um 217.375 störf mönnuð á íslenskum vinnumarkaði og hlutfall lausra starfa því 2,4%, sjá öryggisbil í töflu að neðan.

Frá þriðja ársfjórðungi 2021 fækkaði lausum störfum um 3.400 og hlutfall lausra starfa lækkaði um 1,4 prósentustig. Miðað við sama tímabil 2020 voru 2.600 fleiri störf laus nú og hækkaði hlutfall lausra starfa um 1,0 prósentustig á milli ára.


Um gögnin
Starfaskráning Hagstofu Íslands er ársfjórðungsleg úrtaksrannsókn á meðal íslenskra lögaðila. Þýðið nær til allra lögaðila á Íslandi sem eru með fleiri en einn starfsmann í vinnu. Valið er í úrtak einu sinni á ári í byrjun hvers árs á grundvelli fyrirtækjaskrár ársins á undan. Viðmiðunardagur starfaskráningar fyrir fjórða ársfjórðung 2021 var 15. nóvember og svarhlutfall var 92,3%.

Upplýsingar um fjölda mannaðra starfa eru fengnar úr staðgreiðslugögnum Hagstofu Íslands. Um er að ræða talningar á einstaklingum sem byggja á upplýsingum frá Skattinum um uppgjöf vegna staðgreiðslu af launum og/eða reiknuðu endurgjaldi. Um er að ræða bráðabirgðatölur sem geta tekið breytingum yfir tíma þar sem gæði grunngagna eru betri fyrir nýrri ár.

Við túlkun á fjölda og hlutfalli lausra starfa þarf að hafa í huga að um úrtaksrannsókn er að ræða. Því þarf að hafa 95% öryggisbil til hliðsjónar við túlkun á niðurstöðum.

Við uppfærslu á talnaefni fjórða ársfjórðungs 2021 var öll tímaröð starfaskráningar uppfærð vegna breytinga á vogum. Uppfærslan hafði í för með sér lítilsháttar breytingar á áður útgefnu talanefni.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1037 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.