FRÉTT VINNUMARKAÐUR 12. FEBRÚAR 2015


Stærstu atvinnugreinarnar

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar voru að jafnaði um 177.700 manns starfandi á vinnumarkaði árið 2014. Karlar voru 52,2% af starfandi fólki og konur 47,8%.
Þegar hlutfall starfandi fólks eftir atvinnugreinum í aðal- og aukastarfi (ÍSAT2008) er skoðað fyrir árið 2014 kemur í ljós að stærstu atvinnugreinarnar eru: Heild- og smásöluverslun 13,6%, fræðslustarfsemi 13,3%, heilbrigðis- og félagsþjónusta 12,2%, framleiðsla ýmiskonar 11,5%, rekstur gisti- og veitingastaða 6,8%, sérfræði-, vísinda- og tæknileg starfsemi 6,5%, byggingastarfsemi og mannvirkjagerð 6,1% og flutningar og geymsla 6,1%.  

Fjöldi starfandi í hverri atvinnugrein er samanlagður fjöldi fólks í aðal- og aukastarfi. Hver einstaklingur getur mögulega verið í fleiri en einu starfi í mismunandi atvinnugreinum. Hver og einn er þó aðeins talinn einu sinni í hverri grein. Hlutfall starfandi í hverri atvinnugrein er ekki reiknað út frá samanlögðum fjölda í atvinnugreinum heldur út frá heildarfjölda starfandi fólks á vinnumarkaði.

 

Kynskiptur vinnumarkaður
Þegar atvinnugreinar eru skoðaðar þá sést að vinnumarkaðurinn skiptist að talsverðu leyti eftir kyni. Rúmlega 42% kvenna á vinnumarkaði starfa hjá hjá fyrirtækjum eða stofnunum sem heyra undir tvær atvinnugreinar, annars vegar fræðslustarfsemi og hins vegar heilbrigðis- og félagsþjónustu. Árið 2014 unnu 21,3% af öllum starfandi konum hjá fyrirtækjum eða stofnunum tengdum fræðslustarfsemi. Af þeim sem starfa í greininni voru konur 76,8% en hlutfall karla var 23,2%. Við heilbrigðis- og félagsþjónustu störfuðu 20,9% kvenna árið 2014 sem er 81,8% af öllu starfandi fólki í greininni. Flestir karlar, eða 15,2%, starfa við framleiðslu sem er 68,8% af öllum í greininni.

 

 

 

Veftöflur
Á vef Hagstofu Íslands má finna töflur með upplýsingum um fjölda starfandi, meðal vinnustundir og heildar vinnustundir eftir atvinnugreinum.

Íslensk atvinnugreinaflokkun, ÍSAT 2008, hefur að geyma 664 atvinnugreinar og er byggð atvinnugreinaflokkun Evrópusambandsins sem nefnist NACE Rev.2.

Framkvæmd
Í úrtökuramma vinnumarkaðsrannsóknarinnar eru allir íslenskir og erlendir ríkisborgarar 16–74 ára sem skráðir eru í þjóðskrá og eru með lögheimili á Íslandi. Heildarúrtak ársins 2014 var 15.761 manns. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 15.390 einstaklingar. Nothæf svör fengust  frá 12.153 einstaklingi sem jafngildir 78,9% endanlegri svörun. Allar niðurstöður eru vegnar eftir kyni og aldri.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.