FRÉTT VINNUMARKAÐUR 08. SEPTEMBER 2006


Starfandi erlendir ríkisborgarar 9.010 árið 2005 eða 5,5% af heildarfjölda starfandi

Starfandi erlendum ríkisborgurum fjölgaði á íslenskum vinnumarkaði á árunum 1998 til 2005 samkvæmt staðgreiðsluskrá Hagstofu Íslands. Árið 1998 voru þeir að meðaltali 3.400 en voru orðnir 9.010 árið 2005. Starfandi erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 5.610 á tímabilinu. Hlutfall starfandi með erlendan ríkisborgararétt hefur aukist jafnt og þétt úr 2,3% árið 1998 í 5,5% árið 2005.

Fleiri starfandi karlar en konur með erlent ríkisfang
Árið 2005 voru fleiri starfandi karlar en konur með erlent ríksfang en konurnar voru fleiri í upphafi tímabilsins. Árið 2005 voru 5.350 karlar en 3.650 konur en árið 1998 voru 1.530 karlar og 1.870 konur.

Utan höfuðborgarsvæðis starfa flestir með erlent ríkisfang á Austurlandi
Árið 2005 störfuðu 4.420 erlendir ríkisborgarar á höfuðborgarsvæðinu en 4.340 utan þess. Utan höfuðborgarsvæðisins störfuðu flestir erlendir ríkisborgarar á Austurlandi eða 1.790.
Af öllum starfandi árið 2005 störfuðu flestir við þjónustugreinar (72%), því næst iðngreinar (23%) og fæstir við frumvinnslugreinar (5%). Þegar aðeins er litið til þeirra sem hafa erlent ríkisfang þá störfuðu nær jafnmargir í þjónustugreinum (48%) og iðngreinum (47%) en fæstir í frumvinnslugreinum (5%).

Á Austurlandi starfa flestir með erlent ríkisfang við mannvirkjagerð
Árið 2005 störfuðu flestir erlendir ríkisborgarar innan iðngreinanna við mannvirkjagerð eða 1.890 og hafði þeim fjölgað um 1.770 frá 1998. Mun fleiri störfuðu við mannvirkjagerð utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess og voru þeir flestir á Austurlandi eða 1.170. Erlendum ríkisborgurum sem störfuðu við mannvirkjagerð á Austurlandi fjölgaði umtalsvert frá 1998 en þá voru þeir innan við 10.

Pólverjar fjölmennastir
Árið 2005 voru flestir starfandi erlendir ríkisborgarar pólskir eða 1.970. Næst á eftir koma danskir, filippseyskir, portúgalskir og þýskir ríkisborgarar eða rúmlega 500 frá hverju landi. 

Skýringar
Staðgreiðsluskrá Hagstofunnar byggir á upplýsingum frá ríkisskattstjóra um staðgreiðsluskyldar greiðslur. Í þessari samantekt er starfandi fólk skilgreint sem allir þeir sem fá greidd laun sem eru staðgreiðsluskyld.

Aðalatvinnugrein hvers starfandi manns telst vera sú atvinnugrein sem skilar hæstum tekjum í hverjum mánuði, ef fleiri en ein grein kemur til greina.

Búseta er miðuð við búsetu einstaklings fyrsta hvers mánaðar en ekki aðsetur launagreiðanda.
Mismunur á heildarfjölda fyrir landið allt og tölum fyrir höfuðborgarsvæði annarsvegar og utan höfðuborgarsvæðis hins vegar skýrst af erlendum ríkisborgurum sem eru utan skrár og þar af leiðandi ekki hægt að ákvarða búsetu þeirra.

Starfandi erlendir ríkisborgarar 1998–2005 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.