FRÉTT VINNUMARKAÐUR 19. MARS 2020

Fjöldi þeirra, sem voru starfandi á Íslandi á fjórða ársfjórðungi 2019 á aldrinum 15-69 ára, var að jafnaði 195.163, en tölur um starfandi úr skrám hafa nú verið uppfærðar fyrir þriðja og fjórða ársfjórðung þess árs. Af þeim sem voru starfandi á fjórða ársfjórðungi 2019 voru 92.476 (47,4%) konur og 102.687 (52,6%) karlar.

Flestir þeir sem að jafnaði störfuðu á íslenskum vinnumarkaði á fjórða ársfjórðungi 2019 voru með íslenskan bakgrunn, eða 156.382 (80,1%) en 38.781 (19,9%) teljast til innflytjenda.

Um gögnin
Vinnuafl úr skrám (VS) eru talningar á einstaklingum úr mánaðarlegum staðgreiðslu- og mannfjöldagögnum. Staðgreiðslugögn byggja á upplýsingum frá ríkisskattstjóra um uppgjör vegna staðgreiðslu af launum og/eða reiknuðu endurgjaldi, samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Uppgjörið hefur verið auðgað með öðrum upplýsingum svo hægt sé að nýta það til hagskýrslugerðar, til að mynda til að geta aðgreint staðgreiðsluskyldar launagreiðslur frá öðrum staðgreiðsluskyldum greiðslum.

Þar sem markmiðið er að telja þá sem sannarlega eru starfandi (frekar en alla sem fengu staðgreiðsluskyldar greiðslur) eru þeir skilgreindir sem starfandi sem höfðu tekjur af staðgreiðsluskyldri atvinnu sem samsvarar einni klukkustund á viku. Þetta er í samræmi við skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofunarinnar á því hverjir teljist starfandi. Þeir eru einnig taldir með sem voru í fæðingarorlofi frá vinnu sem og þeir sem skiluðu staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi á því tímabili sem gögnin ná yfir.

Sá sem fæddur er erlendis og á foreldra og báða afa og báðar ömmur sem einnig eru fædd erlendis telst innflytjandi samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar. Aðrir teljast hafa einhvern íslenskan bakgrunn.

Um er að ræða bráðabirgðatölur sem geta tekið breytingum yfir tíma þar sem gæði grunngagna eru betri fyrir nýrri ár.
Rétt er að taka fram að allar tölur hafa verið námundaðar að heilum tölum og því þarf samtala undirliða ekki að koma heim við heildartölur.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1284 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.