Árið 2018 er áætlað að 6,0% ungmenna á aldrinum 16-24 ára hafi ekki verið í vinnu, námi eða starfsþjálfun (e. Not in Employment, Education or Training, NEET). Þetta hlutfall jafngildir því að tæplega 2.400 ungmenni hafi hvorki verið í vinnu né í skóla eða starfsþjálfun það árið. Þetta er í fyrsta sinn sem Hagstofa Íslands birtir tölur um hlutfall og áætlaðan fjölda ungmenna sem standa fyrir utan bæði skólakerfi og vinnumarkað.
Alþjóðlega vinnumarkaðsstofnunin (ILO) hefur bent á að þessi hópur geti verið í áhættuhópi fyrir félagslega einangrun og skort á efnislegum gæðum sökum þess að hann aflar sér hvorki atvinnutekna né byggir upp færni sína með aukinni menntun eða þjálfun.

Hundraðshlutfall ungmenna á aldrinum 16-24 ára sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun Línan sýnir áætlaða prósentu og skyggða gráa svæðið 83,4% sýnir öryggismörk. Öryggismörk af þessu tagi henta vel til að bera saman tvær tölur, hér niðurstöður tveggja ára. Þegar skyggð svæði tveggja ára skarast ekki þá er um tölfræðilega marktækan mun að ræða.

Ísland hefur, líkt og önnur ríki heimsins, sett sér það markmið eigi síðar en árið 2020, að lækka verulega hlutfall fólks á aldrinum 15-24 ára sem ekki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun (Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 8.6). Árið 2014 var NEET hlutfallið 7,2% en lækkaði lítillega næstu ár á eftir og var munurinn frá árinu 2014 orðinn marktækur árið 2016, eða um 2% lækkun, og aftur sambærilegur árið 2017. Árið 2018 hækkaði hlutfallið lítillega aftur, og var metið 6,0%, en breytingin frá árinu 2017 var þó ekki tölfræðilega marktæk. Hlutfallið 2018 er þó verulega lægra en fyrstu árin eftir efnahagshrunið 2008, þegar það var á bilinu 8,3% til 9,1%. Í stórum dráttum má segja að hlutfall 16-24 ára ungmenna sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun, sé nú aftur orðið svipað því sem þekktist á árunum fyrir hrun.

Hlutfall ungmenna á Íslandi sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun er með því lægsta í Evrópu
Árið 2018 var hlutfall ungmenna á Íslandi á aldrinum 16-24 ára sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Í löndum Evrópusambandsins (28 lönd ESB) voru að jafnaði 10,5% ungmenna sem voru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Samkvæmt Eurostat var þetta hlutfall um 5% á Íslandi sem var svipað og í Noregi, Hollandi og Lúxemborg. Hæst var hlutfallið í Tyrklandi, eða 24,4%, en Norður-Makedónía fylgir fast á eftir en þar var hlutfallið 24,1%. Það ber að árétta að Eurostat miðar aðeins við einstaklingsheimili á meðan Hagstofa Íslands telur einnig með þá sem búa á stofnunum. Þetta er skýringin á því að Hagstofan metur hlutfallið hærra en Eurostat.

Hundraðshlutfall ungmenna 15-24 ára sem voru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun árið 2018 í Evrópu Heimild: Eurostat

Konur líklegri til að vera ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun
Konur á aldrinum 20-34 ára eru líklegri til að vera ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun en karlar á sama aldri flest árin á tímabilinu 2003-2018. Á tímabilinu 2003-2008 mældist hlutfall þeirra sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun hærra meðal kvenna heldur en karla, eða á bilinu 3,5% - 5,6%. Í kjölfar efnahagshrunsins jókst bæði hlutfall karla og kvenna sem stunduðu ekki atvinnu, nám eða starfsþjálfun. Á meðal karlmanna var aukningin þó meiri og því dróst munurinn á kynjunum saman. Frá árinu 2013 hefur munurinn aukist aftur milli kynjanna og er tölfræðilega marktækur frá því ári. Árið 2018 var hlutfallið 8,5% meðal kvenna og 6,4% hjá körlum. Þessi kynjamunur skýrist líklega ekki af því að ungar konur séu atvinnulausar eða stundi ekki nám í sama mæli og ungir karlar þar sem hagtölur sýna að atvinnuleysi ungra kvenna er að jafnaði lægra og skólasókn þeirra hærri en meðal karla. Munurinn gæti stafað af því að ungar konur eru frekar utan vinnumarkaðar en ungir karlar. Til dæmis gætu konur á aldrinum 20-34 ára verið líklegri til að vera í fæðingarorlofi áður en þær byrja í starfi, séu frekar öryrkjar, veikar,tímabundið ófærar til vinnu eða líklegri til að vera heimavinnandi.

Kynjamunurinn hér á landi er minni en meðaltal Evrópusambandins. Að jafnaði eru 12,2% karlmanna í Evrópusambandinu utan bæði vinnumarkaðar og skólakerfis en 20,9% kvenna, sem er 8,7 prósentustiga munur.

Hundraðshlutfall ungs fólks á aldrinum 20-34 ára sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun eftir kyni

Hlutfall þeirra sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun eykst með hækkandi aldri
Töluverður munur er á hlutfalli þeirra sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun eftir aldurshópum. Hlutfallið er lægst í aldurshópnum 16-19 ára, sem skýrist líklega af því að langflestir í þessum aldurshópi leggja stund á formlegt eða óformlegt nám. Ef aldurshópurinn 20-34 ára er borinn saman við aldurshópinn 35-64 ára þá er hlutfallið marktækt hærra meðal eldri aldurshópsins flest árin á tímabilinu 2003-2018. Óumdeilt er þó að efnahagshrunið hafði slæm áhrif á stöðu 20-34 ára einstaklinga þar sem hlutfallið jókst frá 5,6% árið 2007 upp í 13,4% árið 2010.

Hundraðshlutfall fólks sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun eftir aldri

Um niðurstöður
Vísirinn um fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun er hluti af Félagsvísum. Félagsvísar eru samstarfsverkefni Hagstofu Íslands og félagsmálaráðuneytis. Félagsvísum er ætlað að mæla þætti sem eru í eðli sínu mikilvægir fyrir líf fólks og hafa bein áhrif á félagslega velferð þeirra. Félagsvísar eiga að nýtast stjórnvöldum og almenningi til að geta fylgst með samfélagslegri þróun. Þessi vísir er mikilvægur þar sem hann endurspeglar ekki aðeins þá einstaklinga sem eru fyrir utan bæði vinnumarkað og skólakerfi, heldur gefur einnig vísbendingu um hversu vel í stakk búið ungt fólk er til að taka við af eldri kynslóðum. Án viðunandi starfsreynslu og færniþjálfunar reynist ungu fólki líklega erfitt að taka við keflinu. Vísirinn fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun (e. Not in Employment, Education or Training, NEET), er hlutfall þeirra sem eru hvorki í vinnu né í námi eða starfsþjálfun af tilteknum aldurshópi og kyni. Uppfylla þarf eftirfarandi tvö skilyrði:

1. er ekki í vinnu, þ.e. annað hvort atvinnulaus eða utan vinnumarkaðar samkvæmt skilgreiningu Alþjóðlegu vinnumarkaðsstofnunarinnar (ILO).
2. stundaði hvorki formlegt né óformlegt nám eða þjálfun síðustu fjórar vikurnar fyrir könnunina.

Vísirinn tekur mið af heildarfjölda í sama aldurshópi og af sama kyni. Skilgreiningin er alþjóðleg og er meðal annars notuð af Eurostat og OECD.

Tölurnar byggja á upplýsingum úr vinnumarkaðsrannsókn (VMR) Hagstofu Íslands. Þar sem VMR er úrtaksrannsókn þarf að gera ráð fyrir óvissu í niðurstöðum. Til að meta óvissuna eru reiknuð öryggisbil (e. confidence interval) fyrir bæði hlutfallið og áætlaðan fjölda sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Með öryggisbilinu er lagt mat á hversu nákvæmlega áætlað gildi segir til um hið raunverulega gildi í þýðinu. Með 83,4% öryggi liggur þýðismeðaltalið á milli efri og neðri marka. Þetta öryggisbil er notað til þess að leggja mat á það hvort að tölfræðilega marktækur munur sé á tveimur tölum. Ef öryggisbil talnanna skarast ekki þá telst munurinn marktækur.

Talnaefni
Fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun, NEET eftir kyni og aldri
Fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun, NEET eftir bakgrunni og aldri