FRÉTT VINNUMARKAÐUR 18. MAÍ 2022

Árið 2021 er áætlað að 6,3% ungs fólks á aldrinum 16-24 ára hafi ekki verið í vinnu, námi eða starfsþjálfun (e. Not in Employment, Education or Training, NEET). Þetta hlutfall jafngildir því að þetta hafi átt við um rúmlega 2.500 ungmenni það árið. Á síðustu tíu árum var hlutfallið lægst 4,9% árið 2017 en hæst 7,4% árið 2020.

Tæplega 7% karla á aldrinum 16-24 ára voru ekki í námi, vinnu eða starfsþjálfun árið 2021. Hlutfall kvenna var lægra, eða 5,6%. Á síðustu fimm árum var munurinn á milli kynjanna mestur árið 2019 en þá voru 6,8% ungra karla ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun samanborið við 4,2% ungra kvenna.

Nokkur munur er á hlutfalli þeirra sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun eftir aldri. Hlutfallið er töluvert lægra á meðal ungs fólks á aldrinum 16-19 ára en stór hluti þess leggur stund á nám. Á síðustu fimm árum var hlutfall ungs fólks á aldrinum 16-19 ára, sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun, hæst 4,5% árið 2020 en lægst 2,7% árið 2021 og hefur hlutfallið ekki verið lægra frá árinu 2004 innan þessa aldurshóps. Á síðustu fimm árum hefur hlutfall þeirra sem ekki eru í vinnu, námi eða starfsþjálfun hækkað á meðal ungs fólks á aldrinum 20-24 ára úr 6,2% árið 2017 í 9% árið 2021.

Árið 2021 voru 9,8% innflytjenda á aldrinum 16-24 ára ekki í námi, vinnu eða starfsþjálfun en á síðustu tíu árum var hlutfallið lægst 1,1% árið 2016 og hæst 16,5% árið 2012. Hlutfall þeirra sem voru með íslenskan bakgrunn á aldrinum 16-24 ára, sem voru ekki í námi, vinnu eða starfsþjálfun, var 6% árið 2021. Á undanförnum tíu árum var hlutfallið lægst 5% árið 2017 og hæst 7,4% árið 2020.

Um gögnin
Tölurnar byggja á upplýsingum úr vinnumarkaðsrannsókn (VMR) Hagstofu Íslands. Þar sem VMR er úrtaksrannsókn þarf að gera ráð fyrir óvissu í niðurstöðum. Til að meta óvissuna eru reiknuð öryggisbil (e. confidence interval) fyrir bæði hlutfallið og áætlaðan fjölda sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Með öryggisbilinu er lagt mat á það hversu nákvæmlega áætlað gildi segir til um hið raunverulega gildi í þýðinu.

Með innflytjanda er átt við einstakling sem er fæddur erlendis, á foreldra sem báðir eru fæddir erlendis auk þess að eiga afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis. Líta má á flokkinn innlendir sem safnheiti. Innlendir geta því verið einstaklingar með engan erlendan bakgrunn, einstaklingar með engan erlendan bakgrunn sem eru fæddir erlendis, einstaklingar sem eru fæddir á Íslandi og annað foreldri er erlent, og einstaklingar sem eru fæddir erlendis, eiga foreldra sem fæddir eru erlendis en a.m.k. eina ömmu eða afa sem fædd/ur er á Íslandi. Annarrar kynslóðar innflytjendur flokkast hér sem innlendir.

Talnaefni
Fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun, NEET eftir kyni og aldri 2003-2021
Fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun, NEET eftir bakgrunni og aldri 2003-2021

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1286 , netfang lifskjararannsokn@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.