FRÉTT VINNUMARKAÐUR 20. JÚNÍ 2018

Atvinna gegnir mikilvægu hlutverki í lífi flestra. Hún er tekjulind og forsenda fyrir þátttöku í markaðssamfélaginu, en þar að auki er hún vettvangur félagslegra tengsla og skapar fólki hlutverk og stöðu í samfélaginu. Því má segja að virkni á vinnumarkaði sé mikilvæg leið til þátttöku í nútímasamfélagi. Fyrir vikið ógnar atvinnuleysi ekki aðeins afkomu fólks, heldur einnig sjálfsmynd þess og félagslegri stöðu.

Nám er ekki síður mikilvægt, sérstaklega á tilteknum æviskeiðum, og getur það gegnt svipuðu hlutverki og vinna í lífi ungs fólks. Nám er yfirleitt ekki tekjulind, heldur þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að undirbúa fólk undir vinnumarkaðinn. Virkni í námi jafngildir þannig virkni á vinnumarkaði, a.m.k. hjá ungu fólki. Fyrir vikið nægir ekki að horfa til þess hvort ungt fólk hafi vinnu eða ekki, heldur skiptir jafnvel enn meira máli hvort það stundi nám.

Í kjölfar efnahagshrunsins fjölgaði ungu fólki sem var án vinnu og utan skóla og ekki í starfsþjálfun, en hlutfall 15–24 ára hækkaði úr 4,3% árið 2008 í 7,3% árið 2009 og hélst svo óbreytt árið 2010 en hefur lækkað síðan. Árið 2017 voru aðeins 3,9% aldurshópsins í þessari stöðu en það er lægra hlutfall en fyrir hrun. Fyrir hrun voru ungar konur líklegri en ungir karlar til að vera án vinnu, utan skóla og ekki í starfsþjálfun en frá 2009 til 2016 hafa ungir karlar verið mun líklegri til að vera í þeirri stöðu. Árið 2017 voru kynin hinsvegar svo gott sem jöfn með tæplega 4%.

Árið 2017 var Ísland með lægsta hlutfall ungs fólks á aldrinum 15–24 ára sem var án vinnu, utan skóla og ekki í starfsþjálfun (3,9%). Næst á eftir komu Holland og Noregur. Hæst var hlutfallið í Makedóníu (24,9%) og Tyrklandi (24,2%) en meðaltal Evrópusambandsins var 10,9%.

Virkni ungs fólks á vinnumarkaði er því með besta móti á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd.

Sjá talnaefni á vef Eurostat

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1286 , netfang lifskjararannsokn@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.