Samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofu Íslands bjuggu 55,5% ungs fólks á aldrinum 18-24 ára í foreldrahúsum árið 2021. Hlutfallið hefur ekki verið lægra frá upphafi mælinga, árið 2004, og var hæst árið 2016, eða 62,2%. Í aldurshópnum 25-29 ára bjuggu 22,5% í foreldrahúsum árið 2021 en horft yfir tímabilið 2004-2021 var hlutfallið einungis hærra árið áður, eða 25,2% árið 2020.
Í báðum aldurshópum eru karlar líklegri til að búa með foreldrum sínum heldur en konur en árið 2021 bjó tæplega helmingur, eða 46,3%, kvenna á aldrinum 18-24 ára með foreldrum sínum samanborið við 63,6% karla. Í aldurshópnum 25-29 ára bjuggu 21,1% kvenna með foreldrum sínum samanborið við 23,6% karla árið 2021, en árið 2004 var hlutfallið svipað hjá körlum en rúmlega helmingi minna hjá konum.
Hlutfall ungs fólks á aldrinum 18-29 ára sem býr í foreldrahúsum var hærra á höfuðborgarsvæðinu en utan höfuðborgarsvæðisins árið 2021. Hlutfall karla í foreldrahúsum var 51,2% á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 44,7% utan höfuðborgarsvæðis og 45,4% meðal kvenna á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 24,9% kvenna utan höfuðborgarsvæðisins. Á tímabilinu 2004-2021 var hlutfall kvenna sem bjó í foreldrahúsum utan höfuðborgarsvæðisins hæst árið 2019, eða 42,5%, og lægst árið 2021.
Ungt fólk í foreldrahúsum í Evrópu
Í ríkjum Evrópusambandsins voru 80,0% ungs fólks á aldrinum 18-24 ára í foreldrahúsum samanborið við 55,5% á Íslandi árið 2021. Hlutfall fólks á þessum aldri í foreldrahúsum er töluvert lægra á þeim Norðulöndum sem mælingar ná til en einnig lægra en hjá öðrum Evrópulöndum. Hlutfallið var lægst í Danmörku (34,1%), Svíþjóð (40,4%) og Finnlandi (42,0%) og hæst í Króatíu (95,9%), Ítalíu (95,6%) og Portúgal (94,5%).
Þegar horft er á aldurshópinn 25-29 ára þá er Ísland einnig undir meðaltali ríkja Evrópusambandsins, eða 22,5% samanborið við 42,1%. Hlutfall fólks á aldrinum 25-29 ára sem býr hjá foreldrum sínum er lægst í Danmörku (5,0%), Finnlandi (6,9%) og Svíþjóð (7,5%) en hlutfallið er hæst í Króatíu (77,0%), Grikklandi (74,3%) og Ítalíu (71,5%).
Atvinnuleysi 8,8% meðal fólks á aldrinum 18-29 ára
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands var atvinnuleysi 8,8% bæði meðal karla og kvenna á aldrinum 18-29 ára en karlar hafa almennt verið líklegri til að vera atvinnulausir frá árinu 2003. Á tímabilinu 2016-2021 jókst atvinnuleysi meðal beggja kynja en atvinnuleysistölur árið 2022 benda þó til þess að atvinnuleysi fari almennt minnkandi.
Hlutfall ungs fólks ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun 6,3%
Árið 2021 var áætlað að 6,3% ungs fólks á aldrinum 16-24 ára hafi ekki verið í vinnu, námi eða starfsþjálfun (e. Not in Employment, Education or Training, NEET). Hlutfall karla var 6,9% samanborið við 5,6% kvenna.
Þau sem búa í foreldrahúsum eru meira en tvöfalt líklegri til að vera í námi, vinnu eða starfsþjálfun heldur en þau sem búa ekki með foreldrum. Árið 2021 voru 12,8% fólks á aldrinum 16-24 ára sem ekki bjuggu í foreldrahúsum ekki í námi, vinnu eða starfsþjálfun samanborið við 5,0% þeirra sem bjuggu með foreldrum.
Samanburður við önnur Evrópulönd árið 2021 sýnir að hlutfall ungs fólks sem ekki er í námi, vinnu eða starfsþjálfun var með því lægsta á Íslandi. Hlutfallið var einungis lægra í Hollandi (5,1%) og Svíþjóð (5,1%). Hlutfallið var hæst í Rúmeníu (18,0%) og Ítalíu (19,8%).
Um gögnin
Tölurnar um ungt fólk í foreldrahúsum eru unnar úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Tölur áranna 2019-2021 eru bráðabirgðatölur.
Fólk er talið búa í foreldrahúsum ef það deilir heimili með öðru eða báðum foreldrum. Við túlkun á niðurstöðum en gengið út frá að fólk á aldursbilinu 18–29 ára sem býr í foreldrahúsum hafi annað hvort ekki flutt úr þaðan eða flutt aftur heim til foreldra. Ekki er þó hægt að útiloka að í einhverjum tilfellum sé þessu á hinn veginn farið, eða að foreldrar hafi flutt inn á barn sitt. Ástæður fyrir slíku geta til dæmis verið fjárhagsþrengingar eða veikindi. Ætla má að líkurnar á að fólk taki foreldra inn á heimili sitt aukist með hækkandi aldri.
Tölurnar um ungt fólk sem ekki er í vinnu, námi eða starfsþjálfun (NEET) og atvinnuleysi byggja á upplýsingum úr vinnumarkaðsrannsókn (VMR) Hagstofu Íslands. VMR er ætlað að afla upplýsinga um störf fólks, vinnutíma og atvinnuleit þeirra í samræmi við vinnumarkaðsmælingar hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat). Þar sem VMR er úrtaksrannsókn þarf að gera ráð fyrir óvissu í niðurstöðum. Almennt séð eykst óvissan eftir því hóparnir eru fámennari..
Rétt er að benda á að niðurstöður fyrir Ísland byggir á endurbættum vogum í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands og því er í einhverjum tilfellum ósamræmi milli birtra talna á vef Hagstofu og á vef Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.