FRÉTT VINNUMARKAÐUR 15. NÓVEMBER 2024

Tölur um fjölda starfandi eftir rekstrarformum hafa verið uppfærðar fyrir árin 2008 til 2024. Fólk í fæðingarorlofi flokkast nú miðað við rekstrarform fyrri launagreiðanda en var áður flokkað sem ríkisstarfsfólk þar sem greiðslurnar bárust frá Fæðingarorlofssjóði. Við þetta fækkar þeim sem flokkast sem starfsfólk ríkisstofnana um 3.208, eða 12,2%, sé miðað við árstölur 2023. Uppfærslan hefur engin áhrif á heildarfjölda starfandi.

Einungis er flokkað eftir aðalstarfi þannig að ef einstaklingur var í fleiri en einu starfi í sama mánuði eða fékk bæði launagreiðslur og greiðslur úr fæðingarorlofssjóði er viðkomandi flokkaður í rekstrarform út frá greiðanda hæstu upphæðar þann mánuð.

Þeir 3.208 einstaklingar sem fengu greiðslur frá fæðingarorlofssjóði árið 2023 og áður voru flokkaðir sem starfsmenn ríkisstofnana dreifast nú á mörg rekstrarform. Starfsmönnum einkahlutafélaga fjölgar um 1.588, starfsmönnum stofnana sveitarfélaga fjölgar um 767 og starfsmönnum einkarekinna samlags- og hlutafélaga fjölgar um 428. Mesta hlutfallslega fjölgunin var á meðal starfsmanna annarra opinberra stofanna, 3,5%, stofnana sveitarfélaga, 2,5%, og einkarekinna sameignarfélaga, 2,1%.

Þeim sem flokkast sem starfandi hjá ríkisstofnun fækkar á bilinu 9,9% til 12,6% á árunum 2008 til 2023 þegar miðað er við launagreiðanda áður en fæðingarorlof hófst í stað fæðingarorlofssjóðs. Munurinn byggir á fjölda í fæðingarorlofi hverju sinni og var mestur árið 2022 en minnstur árið 2016.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.