FRÉTT VINNUMARKAÐUR 20. FEBRÚAR 2009

Hagstofa Íslands gefur nú út 2. útgáfu af ÍSTARF95 en 1. útgáfa hefur verið ófáanleg um árabil. Markmiðið með þessari 2. útgáfu af Íslenskri starfaflokkun er að gera flokkunarkerfið aðgengilegra fyrir notendur þess og auðvelda flokkun starfa. Flokkunarkerfið hefur verið endurbætt með tilliti til breytinga á innihaldi og samsetningu starfa frá því að 1. útgáfa kom út. Helstu breytingar frá fyrri útgáfu eru að starfslýsingum er gert hærra undir höfði og skyld störf eru tilgreind við hvern starfaflokk. Starfsheitum hefur verið fjölgað í tæp 3.300 og atriðisorðaskrá aukin og endurbætt. Við þessa endurskoðun hefur Hagstofan m.a. stuðst við ábendingar frá notendum ÍSTARF95.

Íslenska starfaflokkunarkerfið byggist á alþjóðlegri starfaflokkun, International Standard Classification of Occupations, ISCO88, sem gefið er út af Alþjóðavinnumálastofnuninni, ILO. Notkun samræmds starfaflokkunarkerfis tryggir að vinnumarkaðstölur, þá einkum um atvinnu og laun, séu samanburðarhæfar tölum annarra þjóða.

Hagtölur um íslenskan vinnumarkað flokkaðar eftir ÍSTARF95-flokkunarkerfinu má finna á vef Hagstofu Íslands undir flokknum Laun, tekjur og vinnumarkaður.

ÍSTARF95 má skoða á vef Hagstofu Íslands en ritið er einnig hægt að panta á vefnum eða kaupa í afgreiðslu Hagstofunnar og kostar kr. 2.950.

ÍSTARF95 - Útgáfa

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.