Atvinnuþátttaka 84,3%
Á öðrum ársfjórðungi 2015 voru að jafnaði 196.300 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði sem jafngildir 84,3% atvinnuþátttöku. Frá öðrum ársfjórðungi 2014 hefur fólki á vinnumarkaði fjölgað um 6.400 og atvinnuþátttakan aukist um 1,1 prósentustig eða úr 83,1%.
Atvinnuþátttaka kvenna var 81% en karla 87,5%. Borið saman við sama ársfjórðung 2014 þá var hlutfall kvenna á vinnumarkaði 83,6% og hlutfall karla var 86,9%.
Á vinnumarkaði eða til vinnuaflsins teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir. Atvinnuþátttaka er hlutfall starfandi og atvinnulausra (vinnuafl) af mannfjölda 16-74 ára.
Hlutfall starfandi 80%
Á öðrum ársfjórðungi 2015 voru 186.400 manns starfandi eða 80% af mannfjölda. Frá öðrum ársfjórðungi 2014 til annars 2015 fjölgaði starfandi fólki þegar á heildina er litið um 7.700 manns og hlutfallið hækkaði um 1,8 prósentustig.
Hlutfall starfandi kvenna var 76,5% og starfandi karla 83,5%. Starfandi konum fjölgaði um 3.700 og körlum um 4.200 frá öðrum ársfjórðungi 2014. Hlutfall starfandi kvenna var þá 74,6% og starfandi karla 81,8%.
Atvinnuleysi 5%
Á öðrum ársfjórðungi 2015 voru að meðaltali 9.900 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 5% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 5,6% hjá konum og 4,5% hjá körlum. Samanburður annars ársfjórðungs 2015 við sama ársfjórðung 2014 sýnir að atvinnulausum fækkaði um 1.400 manns og hlutfallið lækkaði um 0,9 prósentustig.
Dregur úr langtímaatvinnuleysi
Af þeim sem voru atvinnulausir á öðrum ársfjórðungi 2015 voru að jafnaði 4.900 manns búnir að vera atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur eða 49,1% atvinnulausra, sem er 2,5% af vinnuaflinu. Á öðrum ársfjórðungi 2014 höfðu 4.400 verið atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur, sem þá var 38,7% atvinnulausra eða 2,3% vinnuaflsins. Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Á öðrum ársfjórðungi 2015 höfðu um 900 manns verið langtímaatvinnulausir eða 8,9% atvinnulausra samanborið við 1.800 manns eða 15,7% atvinnulausra á öðrum ársfjórðungi 2014.
Atvinnulausir teljast þeir sem voru án atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar, þ.e. höfðu hvorki atvinnu né voru í vinnu (í eina klukkustund eða lengur) sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið starf sem hefst innan 3 mánaða. Einstaklingar sem eru ekki í vinnu en eru í námi flokkast atvinnulausir ef þeir uppfylla skilyrðin hér að ofan. Fólk telst vera starfandi ef það hefur unnið eina klukkustund eða meira í viðmiðunarviku könnunar eða verið fjarverandi frá starfi sem það gegnir að öllu jöfnu.
Hagtíðindi
Þessar niðurstöður eru meðal efnis í nýju hefti Hagtíðinda um vinnumarkað á öðrum ársfjórðungi 2015.
Atvinnuþátttaka, atvinnuleysi og fjöldi starfandi á 2. ársfjórðungi | |||||
2012 | 2013 | 2014 | 2015 | ||
2. ársfj. | 2. ársfj. | 2. ársfj. | 2. ársfj. | Öryggisbil ± | |
Atvinnuþátttaka, % | 82,9 | 83,3 | 83,1 | 84,3 | 1,2 |
Atvinnuleysi, % | 7,2 | 6,8 | 5,9 | 5,0 | 0,8 |
Hlutfall starfandi | 76,9 | 77,6 | 78,2 | 80,0 | 1,3 |
Starfandi í fullustarfi, % | 77,1 | 77,7 | 79,6 | 78,6 | 1,5 |
Starfandi í hlutastarfi, % | 22,9 | 22,3 | 20,4 | 21,4 | 1,5 |
Vinnuafl, áætl. fjöldi | 185.500 | 188.300 | 189.900 | 196.300 | 2.800 |
Atvinnulausir, áætl. fjöldi | 13.300 | 12.900 | 11.300 | 9.900 | 1.500 |
Starfandi, áætl. fjöldi | 172.200 | 175.500 | 178.700 | 186.400 | 3.100 |
Launþegar, áætl. fjöldi | 150.600 | 151.600 | 155.800 | 163.700 | 2.400 |
Sjálfstætt starfandi, áætl. fjöldi | 21.700 | 23.900 | 22.900 | 22.700 | 2.400 |
Starfandi í fullu starfi, áætl. fjöldi | 132.800 | 136.300 | 142.300 | 146.600 | 2.800 |
Starfandi í hlutastarfi, áætl. fjöldi | 39.400 | 39.200 | 36.400 | 39.800 | 2.800 |
Heildarvinnutími, klst. | 39,8 | 40,5 | 40,1 | 40,3 | 0,7 |
Vinnutími í fullu starfi, klst. | 44,1 | 45,2 | 44,1 | 44,5 | 0,7 |
Vinnutími í hlutastarfi, klst. | 24,4 | 23,4 | 23,7 | 23,8 | 1,0 |
Utan vinnumarkaðar, áætl. fjöldi | 38.300 | 37.900 | 38.500 | 36.600 | 2.800 |
Mannfjöldi, áætl. fjöldi | 223.800 | 226.200 | 228.500 | 233.000 | • |
Hlutföll eru reiknuð af fjöldatölum áður en þær eru námundaðar á næsta hundrað. |
Vinnumarkaður á 2. ársfjórðungi 2015 - Hagtíðindi
Talnaefni