FRÉTT VINNUMARKAÐUR 07. APRÍL 2022

Árið 2021 voru að jafnaði 208.400 manns á aldrinum 16-74 ára á íslenskum vinnumarkaði sem jafngildir 78,8% atvinnuþátttöku. Atvinnuþátttaka kvenna var 75,1% en karla 82,3%. Vinnuaflið jókst um 6.200 manns frá árinu 2020 og atvinnuþátttakan um 1,4 prósentustig.

Fjöldi starfandi einstaklinga árið 2021 var að jafnaði 195.900 og voru að jafnaði um 6.800 fleiri starfandi árið 2021 en árið 2020. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 74,1% samanborið við 72,4% árið 2020. Hlutfall starfandi kvenna var 70,3% en starfandi karla 77,6%.

Að jafnaði voru 12.500 manns án vinnu og í atvinnuleit árið 2021, eða 6,0% vinnuaflsins, samanborið við árið 2020 þegar atvinnulausir voru 13.000 að jafnaði eða 6,4% vinnuaflsins. Árið 2021 var atvinnuleysi að jafnaði 6,4% hjá konum og 5,6% hjá körlum.

Heildarvinnutími dregist allnokkuð saman
Á árinu 2021 voru unnar stundir á viku að jafnaði 36,7 klukkustundir hjá þeim sem voru við vinnu samanborið við 38 stundir árið 2020. Konur unnu að meðaltali 32,4 stundir árið 2021 og karlar 40,2 stundir.

Þegar litið er á þróun vinnustunda, frá því að samfelld Vinnumarkaðsrannsókn hófst árið 2003, má sjá að heildarvinnutími starfandi fólks hefur dregist allnokkuð saman eða úr um það bil 42 stundum í upphafi í tæplega 37 stundir árið 2021. Sömu sögu má segja um vinnustundir bæði kvenna og karla en þó hefur vinnutími karla styst mun meira en vinnutími kvenna.

Árið 2021 voru venjulegar vinnustundir að jafnaði 38,2 stundir á viku sem er um einni og hálfri klukkustund meira en meðaltal unninna stunda í viðmiðmiðunarviku.

Fyrir 2020 var munurinn jafnan í hina áttina þar sem mat fólks á unnum stundum var hærra fyrir tiltekna viku en venjulegar stundir. Mögulegar skýringar á þessu breytta mynstri niðurstaðna er að reynsla fólks af styttri vinnuviku hafi ekki síast inn þar sem stutt er síðan hún var innleidd hjá stórum hluta vinnuaflsins. Einnig getur kórónuveirufaraldurinn hafa haft áhrif. Að lokum er ekki heldur hægt að útiloka áhrif breytinga á orðalagi spurninga um unnar stundir þar sem fleiri spurningar beinast nú að tilhögun vinnutíma fólks.

Af öllum starfandi unnu 17,2% að jafnaði færri en 30 stundir á viku sem er nánast sama hlutfall og árið áður. Það sem breyttist árið 2021 samanborið við fyrri ár er að mun færri en áður unnu 40 stunda vinnuviku sem er þó enn algengasta lengd vinnuvikunnar. Hlutfall þeirra sem vinna að jafnaði 50 stundir eða meira á viku hefur dregist verulega saman á undanförnum árum en þeir voru 14,2% árið 2021 samanborið við 19,6% árið 2013 og 27,3% árið 2003.

Dreifing venjulegra vinnustunda er enn sem áður ólík eftir kynjum. Árið 2021 unnu 24,9% kvenna að jafnaði minna en 30 stundir í venjulegri vinnuviku samanborið við 10,6% karla og 34,3% kvenna unnu 30-39 stundir en 17,6% karla. Í 24,8% tilfella unnu konur venjulega 40 stundir á viku og 28,1% karla. Þegar litið er á venjulegan vinnutíma yfir 40 stundum eru karlar í miklum meirihluta en 22,1% þeirra segjast venjulega vinna 41-49 stundir á viku á móti 10,3% kvenna. Um 21,5% karla vinna venjulega 50 stundir eða meira á viku samanborið við 5,7% kvenna.

Yfirvinna almennt séð farið minnkandi
Árið 2021 unnu að jafnaði 29,5% yfirvinnu af þeim voru við vinnu í viðmiðunarvikunni. Mun færri konur, eða 23,5%, unnu yfirvinnu en 34,4% karla. Til samanburðar unnu 22,6% þeirra sem voru við vinnu yfirvinnu árið 2020, 18,4% kvenna og 25,9% karla. Frá því að samfellda Vinnumarkaðsrannsóknin hófst árið 2003 má almennt segja að dregið hafi úr yfirvinnu starfandi fólks.

Lýsigögn
Spurningalisti VMR

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1284 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.