FRÉTT VINNUMARKAÐUR 07. MAÍ 2014


Atvinnuþátttaka 79,4%
Á fyrsta ársfjórðungi 2014 voru að jafnaði 181.900 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði og fjölgaði um 2% frá sama tíma ári áður eða um 3.600 manns. Jafngildir þetta 79,4% atvinnuþátttöku. Fjöldi fólks utan vinnumarkaðar var 47.200 og hefur því fólki fækkað um 1% frá fyrra ári eða um 500 manns. Atvinnuþátttaka kvenna var 75,9% og karla 82,9%.

Á fjórða ársfjórðungi 2013 voru alls 178.300 á vinnumarkaði eða 78,9% atvinnuþátttaka og utan vinnumarkaðar voru þá 47.700. Atvinnuþátttaka kvenna var 76,3% og karla 81,4%.

Á vinnumarkaði eða til vinnuaflsins teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir. Atvinnuþátttaka er hlutfall starfandi og atvinnulausra (vinnuafls) af mannfjölda 16-74 ára.

Starfandi fólki fjölgar
Á fyrsta ársfjórðungi 2014 voru að meðaltali 10.500 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 5,8% vinnuaflsins. Atvinnuleysi mældist 5% hjá konum og 6,5% hjá körlum. Fjöldi starfandi á fyrsta ársfjórðungi 2014 var 171.400 manns eða 74,8% af mannfjölda. Hlutfall starfandi kvenna var 72,1% og starfandi karla 77,5%.

Samanburður fyrsta ársfjórðungs 2014 við sama ársfjórðung 2013 sýnir að atvinnuleysi stendur í stað í 5,8% en starfandi fólki fjölgaði nokkuð á þessu tímabili eða um 3.500 sem er 2,1%.


 

Dregur úr langtímaatvinnuleysi
Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Þegar litið er til síðustu sjö ársfjórðunga þá hefur dregið nokkuð úr langtímaatvinnuleysi. Á fyrsta ársfjórðungi 2014 höfðu um 1.700 manns verið langtímaatvinnulausir eða 0,9% vinnuaflsins samanborið við 2.600 eða 1,4% vinnuaflsins á fyrsta ársfjórðungi 2013.


 

Atvinnulausir teljast þeir sem voru án atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar, þ.e. höfðu hvorki atvinnu né voru í vinnu (í eina klukkustund eða lengur) sem launþegi eða sjálfstætt starfandi, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið starf sem hefst innan 3 mánaða. Einstaklingar sem eru ekki í vinnu en eru í námi flokkast atvinnulausir ef þeir uppfylla skilyrðin hér að ofan. Fólk telst vera starfandi ef það hefur unnið eina klukkustund eða meira í viðmiðunarviku könnunar eða verið fjarverandi frá starfi sem það gegnir að öllu jöfnu.

Hagtíðindi
Þessar niðurstöður eru meðal efnis í nýju hefti Hagtíðinda um vinnumarkað á fjórða ársfjórðungi 2013.

Atvinnuþátttaka, atvinnuleysi og fjöldi starfandi á 1. ársfjórðungi
  2011 2012 2013 2014
  1. ársfj. 1. ársfj. 1. ársfj. 1. ársfj. Öryggisbil ±
Atvinnuþátttaka, % 79,2 79,0 78,9 79,4 1,3
Hlutfall starfandi, % 73,0 73,3 74,3 74,8 1,4
Atvinnuleysi, % 7,8 7,2 5,8 5,8 0,9
Vinnuafl, áætl. fjöldi 175.900 175.800 178.300 181.900 2.900
Starfandi, áætl. fjöldi 162.200 163.200 167.900 171.400 3.200
Atvinnulausir, áætl. fjöldi 13.700 12.600 10.300 10.500 1.700
Starfandi í fullu starfi, áætl. fjöldi 118.500 119.600 123.900 127.300 2.700
Starfandi í hlutastarfi, áætl. fjöldi 43.700 43.700 44.100 44.100 2.700
Heildarvinnutími, klst. 39,5 39,9 38,2 38,9 0,6
Vinnutími í fullu starfi, klst. 45,5 46,2 44,0 44,5 0,7
Vinnutími í hlutastarfi, klst. 22,3 22,1 21,3 22,0 1,0
Utan vinnumarkaðar, áætl. fjöldi 46.200 46.900 47.700 47.200 2.900
Mannfjöldi, áætl. fjöldi 222.200 222.700 226.000 229.100
Hlutföll eru reiknuð af fjöldatölum áður en þær eru námundaðar á næsta hundrað.


Framkvæmd
Fyrsti ársfjórðungur 2014 nær til 13 vikna, frá 30. desember 2013 til 30. mars 2014. Heildarúrtakið var 3.925 manns á aldrinum 16–74 ára sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 3.839 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 3.057 einstaklingum sem jafngildir 79,6% af endanlegri svörun. Allar tölur hafa verið vegnar eftir kyni og aldri. Vikmörk niðurstaðna um atvinnuþátttöku eru ±1,3%, hlutfall starfandi ±1,4% og atvinnu¬leysi ±0,9%.

Vinnumarkaður á 1. ársfjórðungi 2014 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.