FRÉTT VINNUMARKAÐUR 14. MARS 2012


Atvinnuleysi 7,3%
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 173.300 manns á vinnumarkaði í febrúar 2012. Af þeim voru 160.700 starfandi og 12.600 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 77,4%, hlutfall starfandi 71,8% og atvinnuleysi var 7,3%. Atvinnulausum hefur fækkað um 1.100 frá febrúar 2011 en þá mældust atvinnulausir 13.700 eða 7,9% vinnuaflsins. Lítil sem engin breyting var á fjölda starfandi fólks frá því í febrúar 2011 en hlutfall starfandi lækkaði um 0,6 prósentustig. Meðalfjöldi vinnustunda var 40 klst. hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni en voru 40,5 klst. í febrúar 2011.

Árstíðaleiðrétting
Leitni atvinnuleysis leiðir í ljós að sl. 12 mánuði hefur atvinnulausum fækkað tiltölulega jafnt eða um 1.500 manns yfir tímabilið. Ekki er þó hægt að greina miklar breytingar á leitni fjölda atvinnulausra ef litið er aftur til síðustu þriggja mánaða. Árstíðaleiðréttur fjöldi atvinnulausra í febrúar 2012 var 12.700 eða 7% en var 11.700 eða 6,5% í janúar. Fjöldi starfandi var 168.700 í febrúar 2012 en var 167.200 í janúar. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu voru vinnustundir í febrúar 39,8 klst en voru 40,5 klst. í janúar 2012. 


Um árstíðaleiðréttingar
Mælingar á íslenskum vinnumarkaði sýna regluleg frávik í tilteknum mánuðum sem rekja má til ártíðabundinna breytinga. Árstíðaleiðrétting er tölfræðileg aðferð sem leitast við að aðgreina árstíðabundnar sveiflur í tímaröðum frá öðrum áhrifaþáttum. Hefð er fyrir því að birta raunmælingu þar sem hún endurspeglar núverandi stöðu en árstíðaleiðréttar mælingar gera samanburð á milli samliggjandi mánaða mun raunhæfari og segja betur hvert tölurnar stefna.

Hagtíðindi
Þessar niðurstöður eru meðal efnis í nýju hefti Hagtíðinda um vinnumarkað í febrúar 2012.

Framkvæmd
Febrúar 2012 nær til fjögurra vikna, frá 30. janúar til 26. febrúar. Úrtakið í febrúar var 1.200 manns á aldrinum 16–74 ára sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 1.170 einstaklingur. Alls fengust nothæf svör frá 976 einstaklingum sem jafngildir 83,4% af endanlegri svörun. Allar tölur hafa verið vegnar eftir kyni og aldri. Vikmörk mánaðarlegra niðurstaðna um atvinnuþátttöku eru ±2,7%, atvinnuleysi ±1,9% og vinnutíma ±1,3 klukkustundir.

Vinnumarkaður í febrúar 2012 - Hagtíðindi

Talnefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.