FRÉTT VINNUMARKAÐUR 05. NÓVEMBER 2020

Eins og á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa árs einkenndist vinnumarkaðurinn á þriðja ársfjórðungi að einhverju leyti af afleiðingum kórónuveirufaraldursins (Covid-19). Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands var fjöldi starfandi fólks um 201.400 á þriðja ársfjórðungi 2020 sem er nálægt því að vera sami fjöldi og á þriðja ársfjórðungi 2019. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 77% og lækkaði um eitt prósentustig á milli ára.

Hlutfall starfandi hefur ekki mælst jafn lágt á þriðja ársfjórðungi síðan árið 2011 þegar það var 76,3%. Fjöldi starfandi í fullu starfi dróst saman um 2.900 manns frá fyrra ári en af starfandi fólki voru 77,5% í fullu starfi sem er lækkun um 1,3 prósentustig frá þriðja ársfjórðungi 2019. Af starfandi fólki voru 82,4% að jafnaði við vinnu í viðmiðunarviku rannsóknarinnar á þriðja ársfjórðungi 2020 samanborið við 80,9% á þriðja ársfjórðungi 2019.

Fækkun vinnustunda
Á þriðja ársfjórðungi 2020 var meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku 39,4 klukkustundir hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 35,6 stundir hjá konum og 42,3 stundir hjá körlum. Til samanburðar var meðalfjöldi vinnustunda 40,8 klukkustundir á þriðja ársfjórðungi 2019, 35,9 stundir hjá konum og 44,5 stundir hjá körlum.

Starfandi fólk vann að jafnaði 39,1 klukkustund í venjulegri viku á þriðja ársfjórðungi 2020 samanborið við 40 stundir á þriðja ársfjórðungi 2019. Af þeim sem unnu minna en venjulega á þriðja ársfjórðungi 2020 nefndu 54,1% frí sem helstu ástæðu færri stunda, 20,3% nefndu vinnuskipulag, 11,4% sögðu misjafnt að gera, 4,2% nefndu veikindi og 9,9% nefndu önnur atriði. Aðeins 1,4% nefndu nú Covid-19 beint miðað við 12,2% á öðrum ársfjórðungi.

Atvinnuleysi 5,1%
Atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 16 til 74 ára var 81,1% af mannfjölda á þriðja ársfjórðungi 2020 eða að jafnaði um 212.100 manns. Þar af töldust að meðaltali 10.700 manns vera atvinnulausir eða um 5,1%. Á sama tíma voru um 3.000 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 1,5% starfa, samanber áður útgefnar tölur. Til samanburðar voru um 7.200 einstaklingar atvinnulausir á þriðja ársfjórðungi 2019 og jókst atvinnuleysi um 1,6 prósentustig á milli ára.

Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 7,4% sem er nánast það sama og á árinu áður. Þetta gerist þrátt mikla fækkun starfa hjá ungu fólki í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Ein af ástæðum fyrir því að atvinnuleysi þessa hóps stendur í stað þrátt fyrir aðstæður á vinnumarkaði má rekja til þess að fleira ungt fólk virðist hafa verið ráðið í sumarstörf á vegum opinberra aðila en fyrri ár.

Slaki á vinnumarkaði
Slaki á vinnumarkaði (e. labour market slack) er til marks um ómætta þörf fyrir atvinnu umfram atvinnuleysi, bæði hjá þeim sem eru á vinnumarkaði og hjá þeim sem eru utan hans. Til að teljast til vinnuaflsins samkvæmt skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) þarf viðkomandi að vera starfandi eða atvinnulaus. Frá upphafi vinnumarkaðsrannsóknarinnar hefur skilgreining á atvinnuleysi verið sú sama og byggir á skilgreiningu ILO. Ómætt þörf fyrir atvinnu endurspeglar atvinnulausa og fólk í hlutastörfum sem vill og getur unnið meira. Einnig telur hún hluta af þeim sem teljast til mögulegs vinnuafls. Það er að segja þá sem eru tilbúnir að vinna en eru ekki að leita að vinnu og einnig þá sem eru ekki tilbúnir að vinna en eru að leita sér að vinnu.

Eins og myndin hér að neðan sýnir þá hefur árstíðasveifla verið nokkuð skýr hvað varðar slaka á vinnumarkaði. Slakinn hefur alltaf verið lægstur á þriðja ársfjórðungi hvers árs. Slakinn hefur verið á nokkurri uppleið frá því hann var lægstur á þriðja ársfjórðungi 2018 og mánaðartölur vinnumarkaðsrannsóknarinnar benda til þess að eftir tiltölulega snarpt sumar á vinnumarkaði þá muni slakinn aukast á komandi mánuðum.

Launafólk í fjarvinnu
Á þriðja ársfjórðungi 2020 unnu að jafnaði 34% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima. Þar af unnu 5,2% launafólks aðalstarf sitt venjulega í fjarvinnu heima en 28,7% launafólks unnu stundum í fjarvinnu. Þetta er aukning frá fyrra ári þegar 28,7% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára sinntu aðalstarfi í fjarvinnu heima, 4,2% unnu þá venjulega fjarvinnu og 24,5% stundum. Fjarvinna heima tekur aðeins til vinnu sem tengist aðalstarfi einstaklinga en ekki til heimilisstarfa eða annarra starfa heima við.

Þegar skoðaðar eru vinnustundir á þriðja ársfjórðungi 2020 sést að launafólk á aldrinum 25 til 64 ára vann 40 klukkustundir að jafnaði í hverri viku. Þeir sem sinntu eitthvað fjarvinnu heima unnu 39,8 klukkustundir en þeir sem aldrei sinntu fjarvinnu heima unnu 40,1 klukkustund. Til samanburðar vann launafólk á aldrinum 25 til 64 ára að jafnaði 41,2 klukkustundir á þriðja ársfjórðungi 2019 og átti það við hvort heldur sem er þá sem unnu einhverja fjarvinnu að heiman eða unnu starf sitt aldrei heima.

Á þriðja ársfjórðungi 2020 unnu launamenn, sem eitthvað vann fjarvinnu heima, að jafnaði 13,7 klukkustundir eða 33,3% af sínum unnu stundum. Á þriðja ársfjórðungi 2019 vann launafólk, sem eitthvað vann í fjarvinnu heima, 6,1 stundir að jafnað eða 14,5% af unnum stundum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1284 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.