Helstu niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands fyrir þriðja ársfjórðung 2022 sýna samskonar stöðu vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði samanborið við sama ársfjórðung á síðasta ári.

Fjöldi starfandi eykst
Hlutfall mannfjölda 16 til 74 ára á vinnumarkaði, eða atvinnuþátttaka, mældist 79,8% á þriðja ársfjórðungi 2022 sem er sama hlutfall og var á sama ársfjórðungi 2021. Fjöldi starfandi á þriðja ársfjórðungi 2022 var 210.400 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 77,1%. Frá þriðja ársfjórðungi 2021 til þriðja ársfjórðungs 2022 fjölgaði starfandi fólki um rétt tæplega 7.300 manns og hlutfall þess af mannfjölda hækkaði um hálft prósentustig. Hlutfall starfandi kvenna var 73,7 % og starfandi karla 80,3%. Starfandi konum fjölgaði um 2.900 og körlum um 4.300.

Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 77,9% og utan höfuðborgarsvæðis 75,8%. Til samanburðar var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 77,9% og 74,3% utan höfuðborgarsvæðisins á þriðja ársfjórðungi 2021.

Dregur úr atvinnuleysi
Á þriðja ársfjórðungi 2022 töldust að meðaltali 7.300 einstaklingar vera atvinnulausir eða um 3,4% af heildarvinnuafli 16 til 74 ára. Til samanburðar voru um 8.500 einstaklingar atvinnulausir á þriðja ársfjórðungi 2021 og var hlutfall þeirra af vinnuafli þá 4,0%.

Atvinnuleysi kvenna mældist nú 3,5% og hafði þá lækkað um 1,1 prósentustig frá þriðja ársfjórðungi 2021. Á sama tímabili lækkaði atvinnuleysi karla úr 3,5% í 3,3% eða um 0,2 prósentustig.

Þegar horft er til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 4,0% nú og er það nánast sama hlutfall og það var á þriðja ársfjórðungi árið 2021. Á tímabilinu minnkaði atvinnuleysi hjá þeim sem eru á aldrinum 25 til 54 ára um 0,6 prósentustig eða úr um 4,2% í 3,6%. Atvinnuleysi minnkaði mest hjá þeim sem eru á aldrinum 55 til 74 ára eða um tæpt eitt og hálft prósentustig, úr 3,5% á þriðja ársfjórðungi 2021 í 2,0% á þriðja ársfjórðungi 2022.

Talnaefni