Segja má að nánast allt árið 2020 hafi áhrif kórónuveirufaraldursins (Covid-19) verið merkjanleg á íslenskum vinnumarkaði. Ein af birtingamyndunum er að atvinnuþátttaka 16-74 ára fyrir árið í heild hefur ekki mælst minni í vinnumarkaðsrannsókninni frá því mælingar hófust árið 1991. Árið 2020 mældist atvinnuþátttaka að jafnaði 79,6% sem er í fyrsta sinn sem mælingin er undir 80%. Atvinnuþátttaka er hlutfall starfandi og atvinnulausra, það er vinnuaflsins, af mannfjölda.
Hlutfall starfandi fólks mældist 75,3% árið 2020 og hefur hlutfallið ekki verið lægra síðan árið 2011. Atvinnuleysi mældist 5,5% að jafnaði yfir árið sem er nokkuð minni en lesa má úr tölum Vinnumálastofnunar . Ein ástæða þess er að fleira fólk en áður fellur utan vinnumarkaðar, það er að segja er ekki með starf, leitar ekki að starfi og/eða er ekki tilbúið til að hefja störf innan ákveðins tíma. Eftir sem áður er það án vinnu og mögulega skilgreinir það sig sjálft sem atvinnulaust. Aldrei áður hafa jafn margir verið í þessum hópi en árið 2020 eða um 53.000 manns sem er 20,4% af mannfjölda 16-74 ára.
Atvinnuþátttaka og hlutfall starfandi ekki lægra á fjórða ársfjórðungi síðan 2011
Fjöldi starfandi á fjórða ársfjórðungi 2020 var 192.500 manns og var hlutfall starfandi af mannfjölda 73,8%. Frá fjórða ársfjórðungi 2019 til fjórða ársfjórðungs 2020 fækkaði starfandi fólki um 7.200 manns og hlutfall þess af mannfjölda lækkaði um 3,2 prósentustig. Hlutfall starfandi hefur ekki mælst jafn lágt á fjórða ársfjórðungi síðan árið 2011 þegar það var einnig 73,8%.
Hlutfall starfandi kvenna var 71,2% og starfandi karla 76,2%. Starfandi konum fækkaði um 2.000 og körlum um 5.100. Hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu var 74,1% og utan höfuðborgarsvæðis 73,2%. Til samanburðar voru 199.700 starfandi á fjórða ársfjórðungi 2019 og hlutfall af mannfjölda 77,0%. Hlutfall starfandi kvenna var þá 73,9% og starfandi karla 79,8%. Þá var hlutfall starfandi fólks á höfuðborgarsvæðinu 77,3% og 76,4% utan höfuðborgarsvæðisins.
Fækkun vinnustunda
Á fjórða ársfjórðungi 2020 var meðalfjöldi heildarvinnustunda á viku 37,9 klukkustundir hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 34,1 stund hjá konum og 41,0 stund hjá körlum. Til samanburðar var meðalfjöldi vinnustunda 39,1 klukkustund á fjórða ársfjórðungi 2019, 35,2 stundir hjá konum og 42,5 stundir hjá körlum. Þegar litið er til ársins í heild vann fólk að jafnaði 37,9 stundir allt árið 2020 samanborið við 39,6 árið 2019. Á þessu má sjá að vinnutími hefur dregist nokkuð saman frá því sem áður var en þetta er lægsta mæling á unnum stundum sem mælst hefur í vinnumarkaðsrannsókninni.
Starfandi fólk vann að jafnaði 37,8 klukkustundir í venjulegri viku á fjórða ársfjórðungi 2020 samanborið við 38,8 stundir á fjórða ársfjórðungi 2019. Af þeim sem unnu minna en venjulega á fjórða ársfjórðungi 2020 var frí helsta ástæða færri stunda eða 45,4%, vinnuskipuleg hjá 14,3%, hjá 12,0% var misjafnt að gera, hjá 8,3% voru veikindi meginástæðan og á meðal 13,5% voru önnur atriði sem skýrðu helst af hverju vinnutími var styttri en venjulega. Hjá 6,5% var kórónuveirufaraldurinn helsta ástæða færri vinnutíma miðað við aðeins 1,4% á þriðja ársfjórðungi.
Atvinnuleysi 6,2%
Atvinnuþátttaka fólks á aldrinum 16 til 74 ára var 78,7% af mannfjölda á fjórða ársfjórðungi 2020 eða að jafnaði um 205.300 manns. Þar af töldust að meðaltali 12.800 manns vera atvinnulausir eða um 6,2%. Atvinnuleysi kvenna var 5,9% og karla 6,5%. Á sama ársfjórðungi voru um 2.800 störf laus á íslenskum vinnumarkaði samkvæmt starfaskráningu Hagstofunnar eða um 1,3% starfa samanber áður útgefnar tölur. Til samanburðar voru um 6.800 einstaklingar atvinnulausir á fjórða ársfjórðungi 2019 og jókst atvinnuleysi um 2,9 prósentustig á milli ára.
Sé horft til aldurshópsins 16 til 24 ára var atvinnuleysi 9,3% sem er nánast það sama og á árinu áður. Á tímabilinu jókst atvinnuleysi hjá þeim sem eru á aldrinum 25 til 54 ára um 4,1 prósentustig eða úr 2,5% í 6,6%. Atvinnuleysi jókst einnig hjá þeim sem eru á aldrinum 55 til 74 ára eða um 1,6 prósentustig eða úr 1,9% á fjórða ársfjórðungi 2019 í 3,3% á fjórða ársfjórðungi 2020.
Utan vinnumarkaðar
Á fjórða ársfjórðungi 2020 voru 55.700 manns utan vinnumarkaðar eða 21,3% af mannfjölda 16-74 ára. Af konum voru 30.500, eða 27,2%, utan vinnumarkaðar og af körlum voru 24.100 utan vinnumarkaðar eða 20,5%.
Af þeim sem voru utan vinnumarkaðar á fjórða ársfjórðungi 2020 voru flestir (18.000) á eftirlaunum, 32,3%, 16.300 voru nemar eða 29,2%, 9.600 voru öryrkjar eða 17,2% og 4.700 manns voru veikir eða tímabundið ófærir til vinnu eða 8,5%. Um 2.500 þeirra sem voru utan vinnumarkaðar töldu sig vera atvinnulausa eða 4,5%. Þessir einstaklingar teljast þó ekki atvinnulausir í niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar þar sem þeir uppfylla ekki skilyrðin í skilgreiningu rannsóknarinnar á atvinnuleysi. Meginstaða þeirra sem eru utan vinnumarkaðar byggist hinsvegar á því hvernig þátttakandi vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar skilgreinir sjálfan sig. Um 2.300 manns voru heimavinnandi eða í fæðingarorlofi, eða 4,2%, og um 2.300 manns, eða 4,1%, skilgreindu stöðu sína með einhverjum öðrum hætti.
Veruleg aukning á fjarvinnu launafólks
Á fjórða ársfjórðungi 2020 unnu að jafnaði 46,9% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára aðalstarf sitt venjulega eða stundum í fjarvinnu heima. Þar af unnu 12,8% launafólks aðalstarf sitt venjulega í fjarvinnu heima en 34,2% launafólks unnu stundum í fjarvinnu. Þetta er aukning frá fyrra ári þegar 33,3% launafólks á aldrinum 25 til 64 ára sinntu aðalstarfi að einhverju leyti í fjarvinnu heima, 4,1% unnu þá venjulega fjarvinnu og 29,2% stundum. Fjarvinna heima tekur aðeins til vinnu sem tengist aðalstarfi einstaklinga en ekki til heimilisstarfa eða annarra starfa heima við.
Þegar skoðaðar eru vinnustundir á fjórða ársfjórðungi 2020 sést að launafólk á aldrinum 25 til 64 ára vann 39,3 klukkustundir að jafnaði í hverri viku. Þeir sem sinntu eitthvað fjarvinnu heima unnu 40,4 klukkustundir en þeir sem aldrei sinntu fjarvinnu heima unnu 38,4 klukkustundir. Til samanburðar vann launafólk á aldrinum 25 til 64 ára að jafnaði 40,9 klukkustundir á fjórða ársfjórðungi 2019, þeir sem unnu eitthvað heima unnu 41,9 klukkustundir og þeir sem sinntu starfi sínu aldrei heima unnu 39,4 klukkustundir.
Á fjórða ársfjórðungi 2020 vann launafólk, sem eitthvað vann fjarvinnu heima, að jafnaði 24,1 klukkustund frá heimili sínu eða um 61% af unnum stundum sínum. Á fjórða ársfjórðungi 2019 vann launafólk, sem eitthvað vann í fjarvinnu heima, 6,1 stund að jafnaði heima eða 14,4% af unnum stundum.
Um leið og birt er talnaefni um fjórða ársfjórðung 2020 eru einnig birtar tölur fyrir árið í heild sinni og uppfærðar mánaðartölur vinnumarkaðsrannsóknar.