FRÉTT VINNUMARKAÐUR 27. MAÍ 2021

Samtals voru 17.700 einstaklingar atvinnulausir í apríl 2021 samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands sem jafngildir 8,6% atvinnuleysi. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 78,1% og árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi 71,3%. Samanburður við mars 2021 sýnir að ársíðaleiðrétt hlutfall starfandi dróst saman um 0,6 prósentustig á milli mánaða og árstíðaleiðrétt atvinnuleysi jókst um 0,3 prósentustig. Síðustu 6 mánuði hefur leitni atvinnuþátttöku nánast staðið í stað en leitni atvinnuleysis aukist um 0,6 prósentustig.

Samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknar er áætlað að 206.200 (±7.500) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi verið á vinnumarkaði í apríl 2021 sem jafngildir 78,4% (±2,8) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að 184.000 (±5.400) hafi verið starfandi og 22.200 (±4.800) án atvinnu og í atvinnuleit. Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 69,9% (±3,0) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 10,8% (±2,4). Samanburður við apríl 2020 sýnir fækkun um 12.500 einstaklinga utan vinnumarkaðar milli ára. Atvinnulausum fjölgaði um 6.900 manns á milli ára eða um 2,8 prósentustig, atvinnuþátttaka jókst um 5,0 prósentustig og hlutfall starfandi jókst um 2,4 prósentustig á milli ára.

Ungt fólk mögulega fyrr í leit að sumarvinnu
Áætlað er að 36,6% einstaklinga á aldrinum 16-24 ára hafi verið án atvinnu og í atvinnuleit í apríl 2021. Hlutfallið er það næst hæsta sem mælst hefur í vinnumarkaðsrannsókn frá árinu 2003 en hlutfallið var hærra í maí 2010 þegar það var 37,1%. Hlutfallið er 9,8 prósentustigum hærra en í apríl 2020. Líkt og sjá má á mynd 1 er atvinnuleysi ungs fólks alltaf hæst í maí þegar nemendur hefja leit að sumarstarfi en hlutfallið má teljast heldur hátt fyrir aprílmánuð. Hugsanleg skýring á þessu er að námsfólk hafi verið fyrr á ferðinni í ár að leita að sumarvinnu og fyrr en áður tilbúið að hefja störf.

Slaki á vinnumarkaði
Töluverður slaki er enn á vinnumarkaði í apríl 2021. Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar sýna að um 39.400 einstaklingar hafi í apríl haft óuppfyllta þörf fyrir atvinnu sem jafngildir 18,3% af einstaklingum á vinnumarkaði og mögulegu vinnuafli. Af þeim voru 56,4% atvinnulausir, 6,9% tilbúnir að vinna en ekki að leita, 15,3% í vinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 21,5% starfandi en vinnulitlir og vilja vinna meira. Samanburður á slaka á vinnumarkaði á milli ára sýnir að hann var nálægt því að vera sá sami í apríl 2021 og í apríl 2020 eða um 0,4 prósentustigum lægri. Leitni slaka sýnir að hann hefur í raun nánast staðið í stað síðastliðna þrjá mánuði.

Um gögnin
Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar fyrir apríl 2021 ná til fjögurra vikna, frá 5. apríl til og með 2. maí. Í úrtak völdust af handahófi 1.525 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára með lögheimili á Íslandi. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis var nettóúrtakið 1.503 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 978 einstaklingum sem jafngildir 65,1% svarhlutfalli.

Líkt og áður hefur verið fjallað um var nýrri vinnutímamælingu bætt við vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar í janúar 2021. Nú hefur talnaefni verið uppfært og eru niðurstöður úr báðum mælingum að finna í talnaefni á vef Hagstofunnar. Eldri tímaröð verður áfram undir heitinu „Unnar vinnustundir – eldri tímaröð“ og niðurstöður nýrrar mælingar undir heitinu „Unnar stundir“. Fram til áramóta 2021 fól mæling á unnum stundum í sér heildarvinnutíma svarenda í aðal- og aukastarfi í viðmiðunarviku. Ný mæling á unnum stundum felur í sér heildarvinnutíma svarenda í aðal- og aukastarfi í viðmiðunarviku að frádregnum skipulögðum matarhléum og fjarveru vegna persónulegra erinda.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1037 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.