FRÉTT VINNUMARKAÐUR 25. MAÍ 2022

Hlutfall atvinnulausra var 2,5% í apríl 2022 samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar. Til samanburðar var árstíðaleiðrétt atvinnuleysi 8,6% í apríl 2021 og hefur atvinnuleysi því dregist saman um 6,1 prósentustig á milli ára. Hlutfall atvinnulausra var nokkuð jafnt á milli kynja, 2,8% á meðal karla og 2,2% á meðal kvenna. Atvinnuleysi á meðal karla lækkaði um 4,1 prósentustig á milli ára en um 8,5 prósentustig á meðal kvenna. Árstíðaleiðrétt leitni atvinnuleysis hefur lækkað um 3,0 prósentustig síðasta árið á meðan leitni hlutfalls starfandi hefur aukist um 3,9 prósentustig.

Samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknar, án árstíðaleiðréttingar, voru 211.000 (±7.700) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði í apríl 2022 sem jafngildir 78,5% (±2,9) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu voru 203.100 (±6.200) starfandi og 7.900 (±2.700) atvinnulausir og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 75,6% (±3,0) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 3,7% (±1,3). Atvinnuþáttaka stóð nánast í stað á milli ára samanborið við apríl 2021 á meðan hlutfall starfandi jókst um 5,7 prósentustig. Starfandi einstaklingar unnu að jafnaði 32,6 (±1,3) stundir á viku í apríl 2022 og fækkaði unnum stundum því um 1,3 á milli ára.

Vert er að hafa í huga að samtala undirliða kann að vera ósamhljóða heildarniðurstöðum þar sem tölur eru námundaðar að næsta hundraði.

Um gögnin
Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar fyrir apríl 2022 ná til fimm vikna frá 3. til og með 30. apríl. Í úrtak völdust af handahófi 1.529 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára með lögheimili á Íslandi. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis var nettóúrtakið 1.511 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 879 einstaklingum sem jafngildir 58,2% svarhlutfalli.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1037 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.