FRÉTT VINNUMARKAÐUR 25. MARS 2021

Samtals voru 13.100 einstaklingar atvinnulausir í febrúar 2021 samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands sem jafngildir 6,4% af vinnuaflinu. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 78,2% og árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi 72,4%. Samanburður við janúar 2021 sýnir að árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka jókst um 1,5 prósentustig á milli mánaða og árstíðaleiðrétt atvinnuleysi dróst saman um 1,8 prósentustig. Síðustu 6 mánuði hefur leitni atvinnuþátttöku haldist stöðug í 77,7%, á sama tíma og leitni atvinnuleysis lækkaði um 0,3 prósentustig og leitni hlutfalls starfandi lækkaði um 0,7 prósentustig.

Samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknar er áætlað að 200.600 (±6.900) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi verið á vinnumarkaði í febrúar 2021 sem jafngildir 76,4% (±2,6) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að 188.300 (±5.800) hafi verið starfandi og 12.300 (±3.200) án atvinnu og í atvinnuleit. Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 71,7% (±3,1) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 6,1% (±1,6). Samanburður á mælingum á milli febrúar 2020 og 2021 sýnir að hlutfall atvinnulausra er sambærilegt en í febrúar 2020 mældist atvinnuleysi 6,2%. Hlutfall starfandi jókst um 0,7 prósentustig og atvinnuþátttaka um 0,6 prósentustig á milli ára.

Töluverður slaki enn á vinnumarkaði
Starfandi á vinnumarkaði unnu að jafnaði 36,0 (±1,2) stundir í febrúar 2021 sem er 2,8 stundum minna en í febrúar 2020. Rétt er að ítreka að breytingar sem gerðar voru um áramót á mælingu vikulegra vinnustunda í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunar urðu þess valdandi að skipulagt matarhlé og fjarvera vegna persónulegra erinda teljast ekki til vinnutíma. Eðlilegt er að mældur vinnutími dragist saman vegna breytinganna en frekari greiningar eru fyrirhugaðar til þess að meta áhrifin. Á mynd 3 má sjá samanburð á tveimur vinnutímamælingum vinnumarkaðsrannsóknar þar sem nokkuð skýr árstíðasveifla sést í báðum mælingum.

Á síðustu tveimur mánuðum hefur nokkuð dregið úr slaka á vinnumarkaði þó töluverður slaki sé enn til staðar. Samtals höfðu um 29.000 einstaklingar óuppfyllta þörf fyrir atvinnu í febrúar 2021 sem jafngildir 13,8% af vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Af þeim voru 42,4% atvinnulausir, 15,1% tilbúnir að vinna en ekki að leita, 18,0% í vinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 24,5% starfandi en vinnulitlir og vildu vinna meira. Samanburður við febrúar 2020 sýnir að dregið hefur úr slaka á vinnumarkaði um 1,2 prósentustig á milli ára.

Um gögnin
Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar fyrir febrúar 2021 ná til fjögurra vikna, frá 1. til 28. febrúar. Í úrtak völdust af handahófi 1.528 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára með lögheimili á Íslandi. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis var nettóúrtakið 1.503 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 974 einstaklingum sem jafngildir 64,8% svarhlutfalli.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1037 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.