Fjöldi atvinnulausra í janúar 2021 var 16.600 manns samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands sem jafngildir 8,2% af vinnuaflinu. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka var 76,7% og árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi 71,5%. Samanburður við desember 2020 sýnir að árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka dróst saman um 1,4 prósentustig á milli mánaða og árstíðarleiðrétt atvinnuleysi jóks um 0,8 prósentustig. Síðustu 6 mánuði hefur leitni árstíðarleiðréttingar á hlutfalli starfandi fólks lækkað um 1,0 prósentustig og leitni atvinnuleysis hækkað um 1,0 prósentustig.
Samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknar er áætlað að 199.400 (±7.700) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi verið á vinnumarkaði í janúar 2021 sem jafngildir 76,0% (±2,9) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að 182.300 (±5.700) hafi verið starfandi og 17.100 (±3.800) án atvinnu og í atvinnuleit. Áætlað hlutfall starfandi af mannfjölda var 69,5% (±3,2) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 8,6% (±1,9). Áætlað er að 62.800 (±7.400) einstaklingar hafi verið utan vinnumarkaðar í janúar 2021 eða 23,9% af mannfjölda. Samanburður við janúar 2020 sýnir að hlutfall starfandi hefur dregist saman um 5,6 prósentustig á milli ára og atvinnuleysi aukist um 4,4 prósentustig.
Breytingar á vogum og mati á mannfjölda
Rétt er að benda notendum á að ný vog og aðferð við mat á mannfjölda í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands hefur verið tekin í notkun. Breytingarnar voru gerðar samhliða breytingum á spurningalista og úrtaksgerð vinnumarkaðsrannsóknar í samræmi við nýja löggjöf sem tekur til ríkja Evrópska hagskýrslusamstarfsins eins og greint var frá í janúarfrétt vinnumarkaðsrannsóknar. Tilgangur með nýrri vog og aðferð við mat á mannfjölda er að draga úr brottfallsskekkju í niðurstöðum og tryggja nákvæmara og stöðugra mat á mannfjölda í rannsókninni. Gerð er nánari grein fyrir breytingunum í meðfylgjandi greinargerð.
Vinnutímamæling í vinnumarkaðsrannsókn
Líkt og skýrt var frá í frétt um vinnumarkaðinn þann 28. janúar sl. hefur mælingu á meðalfjölda vinnustunda á viku verið breytt. Með breytingunum er ætlunin að fanga betur fjarveru frá vinnu í viðmiðunarviku með því að ítreka við svarendur að telja ekki með í svari sínu tíma sem fór í persónuleg erindi og matarhlé. Fyrstu niðurstöður sýna að mældur meðalfjöldi unnina stunda í vinnumarkaðsrannsókn í janúar 2021 var 36,4 stundir (±1,2). Töluverð sveifla hefur sést í mælingum á vinnutíma í vinnumarkaðsrannsókn svo ekki er tímabært að segja til um hversu mikil áhrif breyttar spurningar hafa á mælinguna. Þó má telja líklegt að breytingarnar komi til með að hafa áhrif á tímaraðir með þeim hætti að mældur vinnutími dragist saman og brot verði í tímaröðum. Hins vegar ber einnig að horfa til þess að um þessar mundir eru áhrif styttingar vinnuvikunnar á íslenskum vinnumarkaði að koma fram auk þess sem sveiflur hafa verið á vinnutíma vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins (Covid-19).
Um gögnin
Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar fyrir janúar 2021 ná til fjögurra vikna, frá 4. til 31. janúar. Í úrtak valdist af handahófi 1.521 einstaklingur á aldrinum 16-74 ára með lögheimili á Íslandi. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis var nettóúrtakið 1.486 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 984 einstaklingum sem jafngildir 66,2% svarhlutfalli.
Breytt úrvinnsla vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands - Greinargerð