FRÉTT VINNUMARKAÐUR 06. ÁGÚST 2021

Atvinnuleysi var 5,6% í júní 2021 samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 79,2% og árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi 74,5%. Samanburður við maí 2021 sýnir að árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka, hlutfall starfandi og atvinnuleysi hélst nokkuð stöðugt á milli mánaða. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka og hlutfall starfandi jókst um 0,7 prósentustig og atvinnuleysi dróst saman um 0,1 prósentustig. Leitni hlutfalls starfandi hefur aukist um 0,9 prósentustig síðustu sex mánuði og leitni atvinnuleysis dregist saman um 0,3 prósentustig.

Mæling vinnumarkaðsrannsóknarinnar áætlar að 216.900 (± 5.900) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi verið á vinnumarkaði í júní 2021 sem jafngildir 82,3% (± 2,2) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu voru 206.700 (± 5.300) starfandi og 10.200 (± 3.000) atvinnulausir og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 78,4 % (± 2,6) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 4,7% (± 1,4). Starfandi unnu að jafnaði 36,3 (± 1,0) stundir í júní 2021. Samanburður við júní 2020 sýnir að atvinnuleysi jókst um 0,4 prósentustig á milli ára og hlutfall starfandi jókst um 0,6 prósentustig.

Áætlað er að 21.600 einstaklingar hafi haft óuppfyllta þörf fyrir atvinnu (slaki) í júní 2021 sem jafngildir 9,8% af vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Af þeim voru 47,5% atvinnulausir, 14,0% tilbúnir að vinna en ekki að leita, 7,6% í vinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 30,8% vinnulitlir (starfandi í hlutastarfi sem vilja vinna meira). Slaki á vinnumarkaði var nánast sá sami nú í júní 2021 og í júní 2020 þegar hann mældist 10,0%.

Samtala undirliða kann að vera ósamhljóða heildarniðurstöðu vegna þess að tölur eru námundaðar að næsta hundraði.

Um gögnin
Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar fyrir júní 2021 ná til fimm vikna frá 31. maí til og með 4. júlí. Í úrtak völdust af handahófi 1.898 einstaklingar á aldrinum 16-74 ára með lögheimili á Íslandi. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis var nettóúrtakið 1.867 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 1.182 einstaklingum sem jafngildir 63,3% svarhlutfalli.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1037 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.