FRÉTT VINNUMARKAÐUR 28. OKTÓBER 2021

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi var 3,5% í september 2021 samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 79,5% og hlutfall starfandi 75,6%. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi hefur ekki verið lægra síðan í mars 2020 þegar það mældist 2,8%.

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi lækkaði um 1,5 prósentustig á milli mánaða á meðan ársíðaleiðrétt hlutfall starfandi jókst um 0,4 prósentustig. Árstíðaleiðrétt leitni atvinnuleysis hefur dregist saman um 0,9 prósentustig síðustu sex mánuði og leitni hlutfalls starfandi hefur aukist um 2,4 prósentustig.

Samkvæmt mælingu vinnumarkaðsrannsóknarinnar, án árstíðaleiðréttingar, er áætlað að 207.900 (±6.800) einstaklingar á aldrinum 16-74 ára hafi verið á vinnumarkaði í september 2021 sem jafngildir 78,2% (±2,6) atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu voru 202.000 (±5.100) starfandi og 5.900 (±2.100) atvinnulausir og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 75,9% (±2,5) og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli 2,8% (±1,0). Starfandi unnu að jafnaði 35,6 (±1,1) stundir á viku í september 2021. Samanburður við september 2020 sýnir að atvinnuleysi dróst saman um 1,6 prósentustig á milli ára og hlutfall starfandi jókst um 2,2 prósentustig.

Í september 2021 er áætlað að 26.200 einstaklingar hafi haft óuppfyllta þörf fyrir atvinnu (slaki) sem jafngildir 12,1% af samanlögðu vinnuafli og mögulegu vinnuafli. Af þeim voru 22,5% atvinnulausir, 28,4% tilbúnir að vinna en ekki að leita, 7,5% í atvinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 41,6% vinnulitlir (starfandi í hlutastarfi og vilja vinna meira). Samanburður við september 2020 sýnir að hlutfall þeirra sem hafa óuppfyllta þörf fyrir atvinnu hefur lækkað um 1,4 prósentustig á milli ára. Árstíðaleiðrétt leitni slaka hefur nánast staðið í stað síðustu þrjá mánuði en lækkað um 0,4 prósentustig á síðustu sex mánuðum.

Samtala undirliða kann að vera ósamhljóða heildarniðurstöðum þar sem tölur eru námundaðar að næsta hundraði.

Um gögnin
Niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar fyrir september 2021 ná til 5 vikna frá 30. ágúst til og með 3. október. Í úrtak völdust af handahófi 1.901 einstaklingur á aldrinum 16-74 ára með lögheimili á Íslandi. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis var nettóúrtakið 1.868 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 1.228 einstaklingum sem jafngildir 65,7% svarhlutfalli.

Helstu skilgreiningar í vinnumarkaðsrannsókn eru þessar:

Atvinnulausir: Eru þeir sem eru án atvinnu í viðmiðunarviku rannsóknarinnar, það er hafa hvorki atvinnu (í eina klukkustund eða lengur) sem launþegar né sjálfstætt starfandi, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið starf sem hefst innan þriggja mánaða. Einstaklingar sem eru ekki í vinnu en eru í námi flokkast sem atvinnulausir ef þeir uppfylla skilyrðin hér að framan. Námsmenn, þar með taldir þeir sem leita námssamnings í iðngrein, teljast því aðeins atvinnulausir ef þeir hafa leitað eftir vinnu með námi eða framtíðarstarfi síðastliðnar fjórar vikur og eru tilbúnir að hefja störf innan tveggja vikna frá því rannsóknin var gerð.

Atvinnuleysi: Hlutfall þeirra sem teljast vera án vinnu og í atvinnuleit af vinnuaflinu.

Starfandi: Til þeirra sem eru starfandi telst hver sá sem vann a.m.k. eina klukkustund í viðmiðunarvikunni eða var fjarverandi frá vinnu sem hann er að öllu jöfnu ráðinn í.

Hlutfall starfandi: Hlutfall starfandi er hlutfall þeirra sem teljast starfandi af þeim sem eru á aldrinum 16-74 ára.

Vinnuafl: Til vinnuafls teljast þeir sem eru starfandi eða atvinnulausir. Fólk telst utan vinnuafls ef það hvorki fullnægir skilyrðum um að vera starfandi né atvinnulaust.

Atvinnuþátttaka: Atvinnuþátttaka er hlutfall atvinnulausra og starfandi af þeim sem eru á aldrinum 16 -74 ára.

Óuppfyllt þörf fyrir atvinnu: Til þess að meta þörf fyrir atvinnu sem ekki er uppfyllt eru eftirfarandi hópar lagðir saman: 1) Atvinnulausir, 2) einstaklingar í hlutastörfum sem vilja og geta unnið meira, 3) þeir sem eru tilbúnir að vinna en eru ekki að leita að vinnu og 4) þeir sem eru ekki tilbúnir að hefja störf innan tveggja vikna en eru þó að leita sér að vinnu.

Slaki á vinnumarkaði: Slaki á vinnumarkaði er hlutfall þeirra sem hafa óuppfyllta þörf fyrir atvinnu af vinnuafli og mögulegu vinnuafli.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1037 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.