Út er komið hefti í efnisflokknum Upplýsingatækni þar sem birtar eru niðurstöður úr rannsóknum Hagstofunnar á notkun heimila og einstaklinga á tæknibúnaði og interneti árin 2002 og 2003.
Meðal þess sem þar kemur fram er að nær öll heimili á Íslandi hafa sjónvarp eða 97%, 91% heimila eru með myndbandstæki, 95% farsíma, 84% tölvu og 78% tengingu við internetið. Mikill meirihluti einstaklinga á aldrinum 16-74 ára notar tölvu eða 86% og flestir a.m.k. einu sinni hvern virkan dag. Fjórir af hverjum fimm einstaklingum nota internetið og þá helst í þeim tilgangi að senda og taka á móti tölvupósti, til að lesa dagblöð og leita upplýsinga á vefsíðum sem og fyrir almenn bankaviðskipti. Árið 2003 hafði fimmti hver einstaklingur á aldrinum 16-74 ára pantað eða keypt vöru eða þjónustu um internet.
Í heftinu eru niðurstöður mælinga á tæknibúnaði á heimilum settar fram eftir búsetu en niðurstöður mælinga á notkun einstaklinga á tölvum og interneti eru settar fram eftir kyni, aldri, búsetu, menntun og atvinnu.
Notkun heimila og einstaklinga á tæknibúnaði og interneti 2002 og 2003 - útgáfur
Talnaefni