Gefin hafa verið út Hagtíðindi í efnisflokknum Upplýsingatækni þar sem birtar eru niðurstöður úr þriðju rannsókn Hagstofunnar á notkun heimila og einstaklinga á tæknibúnaði og interneti. Í heftinu er fjallað um tæknibúnað á heimilum á Íslandi og tölvu- og internetnotkun einstaklinga árið 2004. Skoðað er hvaða aðgerðir fólk hefur framkvæmt í tölvu og í hvaða tilgangi það nýtir sér internetið. Samanburður er gerður á útbreiðslu internetnotkunar á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum.
Í heftinu eru niðurstöður mælinga á tæknibúnaði á heimilum settar fram eftir búsetu og heimilisgerð og niðurstöður mælinga á notkun einstaklinga á tölvum og interneti eru settar fram eftir kyni, aldri, búsetu, menntun og atvinnu.