FRÉTT VÍSINDI OG TÆKNI 25. MAÍ 2007

Út er komið hefti í efnisflokknum Upplýsingatækni þar sem birtar eru niðurstöður úr sjöttu rannsókn Hagstofunnar á notkun heimila og einstaklinga á tæknibúnaði og interneti. Könnunin var gerð fyrr á þessu ári.

Niðurstöður sýna að tölvur eru á 89% heimila og 84% heimila geta tengst interneti. Nærri níu af hverjum tíu nettengdum heimilum nota ADSL, SDSL eða annars konar xDSL tengingu og einungis 7% nettengdra heimila nota hefðbundna upphringi-tengingu eða ISDN.

Níu af hverjum tíu Íslendingum á aldrinum 16–74 ára nota tölvu og internet. Flestir nota internetið því sem næst daglega. Tilgangur einstaklinga með notkun internets breytist lítið milli ára og líkt og fyrri ár var miðillinn helst notaður til samskipta og upplýsingaleitar. Árið 2007 hafði um þriðji hver Íslendingur pantað og keypt vörur eða þjónustu um internet á því þriggja mánaða tímabili sem spurt var um. Enn er algengast að fólk kaupi farmiða, gistingu eða annað tengt ferðalögum um internet.

Í heftinu er fjallað um tölvur og internet á heimilum á Íslandi og tölvu- og internetnotkun einstaklinga árið 2007. Skoðað er hvaða aðgerðir fólk hefur framkvæmt í tölvu og á interneti og í hvaða tilgangi það nýtir sér internetið. Heftið inniheldur yfirlit yfir helstu niðurstöður. Ítarlegri niðurstöður má finna á heimasíðu Hagstofunnar undir efnisliðnum Upplýsingatækni.

Notkun heimila og einstaklinga á tölvum og interneti 2007 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.