Út er komið hefti í efnisflokknum Upplýsingatækni þar sem birtar eru niðurstöður úr fimmtu könnun Hagstofunnar á notkun heimila og einstaklinga á tæknibúnaði og interneti. Könnunin var gerð í mars síðastliðnum.
Niðurstöður sýna að nærri níu af hverjum tíu Íslendingum á aldrinum 16–74 ára nota tölvu og internet. Flestir nota internetið því sem næst daglega. Enn fjölgar einstaklingum sem kaupa vörur og þjónustu um internet en árið 2006 höfðu 31% einstaklinga pantað eða keypt um internet. Líkt og fyrri ár er algengast að fólk panti ferðir, gistingu eða annað ferðatengt um internet. Enn fjölgar í hópi nettengdra heimila sem nota hraðvirkar internettengingar, en þeim hefur fjölgað úr 26% árið 2002 í 85% árið 2006.
Í heftinu er nánar fjallað um tæknibúnað á heimilum á Íslandi og tölvu- og internetnotkun einstaklinga árið 2006. Skoðað er hvaða aðgerðir fólk hefur framkvæmt í tölvu og á interneti og í hvaða tilgangi það nýtir sér internetið. Áhugi fólks á samskiptum við opinbera aðila um internet er skoðaður sérstaklega. Samanburður er gerður á útbreiðslu internetnotkunar á Íslandi og í öðrum löndum.
Í heftinu eru niðurstöður mælinga á tæknibúnaði á heimilum settar fram eftir búsetu, heimilisgerð og tekjum heimilis og niðurstöður mælinga á notkun einstaklinga á tölvum og interneti eru settar fram eftir kyni, aldri, búsetu, menntun og atvinnu.
Notkun heimila og einstaklinga á tæknibúnaði og interneti árið 2006 - Hagtíðindi
Use of ICT and the Internet by households and individuals in Iceland 2006 - Statistical Series
Talnaefni