Tölvur og internettengingar er að finna á hlutfallslega fleiri heimilum hér á landi en í öðrum löndum Evrópu. Árið 2005 voru nærri níu af hverjum tíu heimilum hér á landi með tölvu og 84% höfðu aðgang að interneti. Að meðaltali voru 58% heimila í aðildarlöndum Evrópusambandsins með tölvu og rétt tæpur helmingur gat tengst interneti þetta sama ár. Notkun tölvu og internets er að sama skapi útbreidd meðal einstaklinga hér á landi en árið 2005 notuðu 88% Íslendinga á aldrinum 16–74 ára tölvu og 86% þeirra notuðu internet. Á sama tíma notuðu 59% íbúa Evrópusambandsins tölvu og 52% þeirra notuðu internet.
Árið 2004 störfuðu 426 fyrirtæki með ríflega 5.500 starfsmenn í upplýsingatækniiðnaði hér á landi. Velta þessara fyrirtækja var tæpir 90 milljarðar króna þetta sama ár.
Árið 2004 voru fluttar inn upplýsingatæknivörur að verðmæti 49 milljarða. Sama ár voru fluttar út upplýsingatæknivörur fyrir ríflega hálfan milljarð íslenskra króna og verðmæti útfluttrar þjónustu tengdri upplýsingatækni nam tæplega fjórum milljörðum króna.
Í tengslum við UT daginn sem haldinn verður hér á landi þann 24. janúar n.k. gefur Hagstofan út tvö hefti um íslenskt upplýsingasamfélag. Hið fyrra er samantekt á niðurstöðum úr samræmdum evrópskum könnunum á notkun heimila og einstaklinga á upplýsingatækni og interneti. Í hinu heftinu birtir Hagstofan tölur yfir fjölda starfandi fyrirtækja í upplýsingatækniiðnaði, fjölda starfsmanna og veltu fyrirtækja í þessum geira á árunum 2000 til 2004. Að auki eru birtar tölur yfir verðmæti inn- og útfluttra upplýsingatæknivara sem og útfluttrar upplýsingatækniþjónustu.
Ísland í evrópsku upplýsingasamfélagi - Hagtíðindi
Íslenskur upplýsingatækniiðnaður 2000-2004 - Hagtíðindi