FRÉTT VÍSINDI OG TÆKNI 15. DESEMBER 2005

Hlutfallslega fleiri heimili hér á landi eru tengd interneti en annars staðar á Norðurlöndum. Árið 2005 voru 84% íslenskra heimila með tengingu við internet á meðan 75% danskra heimila, 73% sænskra heimila, 64% norskra heimila og 54% finnskra heimila gátu tengst interneti. Notkun háhraðatenginga er einnig útbreiddari meðal heimila hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Internetnotkun einstaklinga er algengust hér á landi en 73–81% einstaklinga á aldrinum 16–74 ára notuðu internet annars staðar á Norðurlöndum í byrjun árs 2005 á móti 86% Íslendinga.

 

Þetta er meðal þess sem birt er í nýrri skýrslu Norræna ráðherraráðsins, Nordic Information Society Statistics 2005 sem gefin er út í dag. Skýrslan var unnin í samvinnu við hagstofur Norðurlandanna og eru í henni birtar niðurstöður um ýmis málefni sem snerta upplýsingasamfélagið á Norðurlöndum. Auk þess er dregin upp mynd af stöðu mála í löndum Evrópusambandsins og OECD. Í bókinni eru upplýsingar um

-     fjarskiptakerfið,

-     nettengingar á heimilum og internetnotkun einstaklinga,

-     internetnotkun fyrirtækja,

-     notkun internets innan opinbera geirans,

-     öryggi rafrænna miðla,

-     rafræna kunnáttu og fjarnám,

-     upplýsingatækniiðnaðinn, fjölda fyrirtækja, starfsmanna, veltu og virðisauka,

-     upplýsingatækni og framleiðni fyrirtækja.

 

Í dag verður einnig gefin út skýrslan Indicators for the Information Society in the Baltic Region 2005 sem er samvinnuverkefni Norræna ráðherraráðsins, Eystrasaltsráðsins og hagstofa aðildarlanda þess. Aðildarlöndin eru: Danmörk, Eistland, Finnland, Ísland, Lettland, Litháen, Noregur, Pólland, Rússland, Svíþjóð og Þýskaland. Efninu var safnað vorið 2005 og tekur til fjölmargra þátta sem varða uppbyggingu tæknimála í löndunum, notkunar heimila, einstaklinga og fyrirtækja á upplýsingatækni, rafrænnar þjónustu hins opinbera og framleiðslu og utanríkisverslunar með upplýsingatæknivörur.

 

Báðar skýrslurnar má nálgast endurgjaldslaust á vef Hagstofu Íslands www.hagstofa.is. Einnig er hægt að panta þær á vef Norræna ráðherraráðsins www.norden.org. Töflur við bókina Indicators for the Information Society in the Baltic Region 2005 er hægt að nálgast á vef dönsku hagstofunnar www.dst.dk/it.

 

Nordic Information Society Statistics 2005 – skýrslan
Indicators for the Information Society in the Baltic Region 2005 - skýrslan

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.