FRÉTT VÍSINDI OG TÆKNI 18. FEBRÚAR 2022

Mikill meirihluti íslenskra fyrirtækja vann að nýjungum í starfsemi sinni, sem ýmist voru markaðssettar eða innleiddar í starfsemina, á árunum 2018-2020 eða 74%. Um alþjóðlega mælingu er að ræða en til samaburðar voru 63% fyrirtækja í Noregi nýjungagjörn, 55% fyrirtækja í Svíþjóð og 48% í Danmörku.

Fyrirtæki sem settu nýja, eða merkjanlega breytta vöru og/eða þjónustu, á markað á umræddu tímabili voru 46% af heildarfjölda fyrirtækja en á árunum 2016-2018 var hlutfallið til samanburðar 29%. Munurinn á milli þessara tveggja tímabila skýrist einkum af því að hlutfall fyrirtækja sem vann að nýjungum í vöruúrvali jókst um 14 prósentustig og nýjungum í þjónustu um 18 prósentustig.

Hlutfallslegar breytingar á milli tímabila voru mestar í fjármála- og vátryggingastarfsemi, upplýsingum og fjarskiptum og matvæla og drykkjavöruiðnaði þar sem aukning var á bilinu 20-30 prósentustig. Rétt er þó að hafa í huga að skilin á milli vöru og þjónustu eru að mestu leyti háð huglægu mati svarenda.

Fyrirtæki töldust einnig vera nýjungagjörn ef merkjanlegar breytingar voru innleiddar í starfsemi þeirra sem átti við um 68% íslenskra fyrirtækja. Það átti einnig við um fyrirtæki sem unnu að þróun nýs varnings eða þjónustu á tímabilinu sem ekki fór á markað en það náði til 51% fyrirtækja.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.