FRÉTT VÍSINDI OG TÆKNI 12. JÚNÍ 2024

Einungis um helmingur fyrirtækja, eða 48%, vann að nýjungum í starfsemi sinni á tímum kórónuveirufaraldursins árin 2020 til 2022. Þetta var verulegur samdráttur frá fyrri árum en á tímabilinu 2018 til 2020 innleiddu 74% fyrirtækja nýja verkferla, markaðssettu nýjar vörur og þjónustur eða unnu að öðrum nýjungum í starfsemi sinni.

Samdrátturinn skýrist að mestu leyti af áhrifum faraldursins þar sem áhersla fyrirtækja á sköpun nýrra tekjulinda og tækifæra til vaxtar vék fyrir nauðsynlegum aðgerðum til að tryggja rekstrarhæfi og áframhaldandi starfsemi. Sambærileg þróun átti sér stað erlendis en til samanburðar töldust 57% fyrirtækja í Noregi vera nýjungagjörn, 50% í Svíþjóð og 46% í Danmörku á árunum 2020 til 2022.

Samdráttur var í nýsköpun í öllum helstu atvinnugreinum. Hlutfall nýjungagjarnra fyrirtækja lækkaði mest í matvæla- og drykkjarvöruiðnaði eða um 35 prósentustig úr 76% í 41% en þar að auki var um 30 prósentustiga lækkun í flutningi og geymslu, upplýsingum og fjarskiptum og heildverslun. Í flestum öðrum greinum nam lækkunin yfir 20 prósentustigum á milli tímabila.

Þegar einungis er horft á nýjungar í þróun vöru og þjónustu verður myndin svipuð. Alls settu 29% fyrirtækja nýja eða merkjanlega breytta vöru eða þjónustu á markað árin 2020 til 2022 samanborið við 46% árin 2018 til 2020. Hlutfall fyrirtækja sem unnu eingöngu að nýjungum í vöruúrvali lækkaði þar af um 15 prósentustig, úr 38% í 23% og hlutfall fyrirtækja sem unnu eingöngu að nýjungum í þjónustu um 19 prósentustig úr 39% í 20%. Mest var lækkunin í fjármála- og tryggingastarfsemi, matvæla- og drykkjarvöruiðnaði og upplýsingum og fjarskiptum.

Þrátt fyrir að stór hluti nýsköpunar fyrirtækja fælist í þróun vöru- og þjónustu var samt algengara að fyrirtæki innleiddu verkferla af ýmsum toga í starfsemi sína fremur en að markaðssetja nýjar vörur og þjónustur. Dæmi um slíka verkferla voru nýjar eða breyttar framleiðsluaðferðir, geymslu- og flutningsleiðir, markaðssetning og skipulagsbreytingar. Þannig innleiddu 42% fyrirtækja nýja verkferla á tímabilinu 2020 til 2022 sem jafnframt var umtalsvert lægra hlutfall en árin 2018 til 2020 þegar það var 68%. Hlutfall fyrirtækja sem setti nýjar eða breyttar vörur og þjónustur á markað var aftur á móti 29% eins og áður kom fram.

Þá voru stærri fyrirtæki almennt líklegri til að innleiða nýjungar í starfsemi sinni og markaðssetja nýjar vörur og þjónustur. Áhrif kórónuveirufaraldursins á framtakssemi þeirra voru enn fremur minni á heildina litið enda lækkaði hlutfall nýjungagjarnra fyrirtækja með yfir 250 starfsmenn um 22 prósentustig samanborið við 30 prósentustiga lækkun hjá meðalstórum fyrirtækjum (50-249 starfsmenn) og 25 prósentustiga lækkun hjá smáum fyrirtækjum (10-49 starfsmenn). Ástæðan var einkum sú að markaðssetning nýrrar vöru og þjónustu dróst hlutfallslega minna saman hjá stórum fyrirtækjum en litlum og meðalstórum fyrirtækjum á árunum 2020 til 2022.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.