Netnotkun Íslendinga eykst lítillega á milli ára, líkt og fyrri ár, og teljast nú 95% íbúa landsins til reglulegra netnotenda. Er það hæsta hlutfall sem mælist í Evrópu, en meðaltal reglulegra netnotenda í löndum Evrópusambandsins er 72%. Tæplega helmingur netnotenda tengist netinu á farsímum eða snjallsímum og þar af taka 72% myndir á síma sína til að hlaða beint inn á netið. 59% netnotenda taka öryggisafrit af gögnum sínum, en af þeim sem það gera nota 55% til þess geymslurými á netinu, eða tölvuský. 12% þeirra einstaklinga sem nota tölvuský til að geyma öryggisafrit af gögnum greiða fyrir það. 58% netnotenda höfðu verslað af netinu ári fram að rannsókn. Aukning var mest á milli ára í kaupum á hugbúnaði og tölvuleikjum, en einnig kom fram aukning á kaupum á kvikmyndum og tónlist.

Niðurstöður fyrir Ísland voru birtar á vef Hagstofu Íslands í nóvember, en í desember gaf Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, út helstu niðurstöður fyrir öll þau lönd sem tóku þátt í rannsókninni.

Fyrirtækjarannsóknin nær yfir þau fyrirtæki sem eru að lágmarki með 10 starfsmenn, en fjármálafyrirtæki eru undanskilin.

Af fyrirtækjum á Íslandi eru 85% með eigin vefsíðu og þar af eru 35% með möguleika á að panta vöru eða þjónustu af vefsíðunni. 20% fyrirtækja telja kostnað við að hefja netsölu vera of háan til að það borgi sig. Þá nota 19% fyrirtækja samfélagsmiðla til að ráða starfsfólk. Það að fyrirtæki séu með opinbera stefnu til að takmarka neikvæð áhrif starfseminnar á umhverfið er álíka algengt á Íslandi og í Danmörku, en sjaldgæfara en í Svíþjóð. Mun sjaldgæfara er að fyrirtæki á Íslandi geri kröfu um umhverfisvottun framleiðenda upplýsingatækni en í Svíþjóð og Danmörku.

Tölvu- og netnotkun á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum 2013 - Hagtíðindi

Talnaefni